8 Febrúar 2008 12:00
Stefán Eiríksson lögreglustjóri opnaði í dag ljósmyndasýninguna Útkall 2007 í Kringlunni. Sýningin er haldin í tengslum við 1-1-2 daginn 11. febrúar nk. Í opnunarávarpi sínu sagði Stefán að sýningin væri eins og 1-1-2 dagurinn haldin til þess að minna á verkefni og mikilvægi þeirra fjölmörgu viðbragðsaðila sem störfuðu í landinu. Það væri raunar einkar viðeigandi að opna þessa sýningu einmitt í dag, þegar þúsundir viðbragðsaðila um allt land væru að búa sig undir að takast á við dýpstu lægð vetrarins.
Myndirnar á sýningunni eru ríflega 20 talsins og sýna lögreglu, slökkvilið, björgunarsveitir og fleiri viðbragðsaðila að störfum við ýmsar aðstæður, frá miðborg Reykjavíkur til Svínafellsjökuls. Ljósmyndarar frá Morgunblaðinu, Fréttablaðinu, Víkurfréttum og Austurglugganum ásamt fleiri miðlum eiga myndir á sýningunni og þakkaði Stefán þeim sérstaklega þeirra framlag. Gerði hann öflugt og gott samstarf viðbragðsaðila og fjölmiðla að umtalsefni og sagði hlut fjölmiðla mikilvægan frá ýmsum sjónarhornum. Hlutverk þeirra væri að miðla upplýsingum og um leið að skrásetja söguna hverju sinni. Mikilvægt væri að efla og styrkja samstarf þessara aðila og auka skilning þeirra á störfum hvers annars.
Sýningin Útkall 2007 er eins og áður sagði í verslunarmiðstöðinni Kringlunni og stendur til 18. febrúar nk.
Stefán Eiríksson lögreglustjóri flutti ávarp við opnun sýningarinnar.