11 Janúar 2016 14:29
Aðfaranótt 4. janúar sl. mun einhver eða einhverjir hafa brotið sér leið inn í húsnæði Grunnskólans á Ísafirði, við Austurveg, og kveikt í flugeld þar inni. Tjón af þessu hátterni var minni háttar en augljós óþrifnaður. Lögreglan óskar eftir upplýsingum um geranda/gerendur ef einhver býr yfir þeim. Sími lögreglunnar á Vestfjörðum er 444 0400.
Að kveldi 9. janúar barst lögreglu tilkynning um að einhverjir aðilar hafi verið að sprengja flugelda í Vestfjarðagöngunum. Aðilarnir voru á bak og burt þegar lögreglan kom á vettvang. Sambærilegt atvik gerðist í Bolungarvíkurgöngum aðfaranótt gamlársdags. Athæfið er grafalvarlegt enda vilja engir að eldur kvikni í veggöngum því öryggi vegfarenda er þá teflt í tvísýnu. Búi einhver yfir upplýsingum um aðilana sem hafa verið að stunda þetta er sá hinn sami hvattur til að gera lögreglunni viðvart, í síma 444 0400.
Að kveldi 10. janúar var lögregla og sjúkralið kallað að hafnarsvæðinu á Ísafirði en þar hafði ölvaður maður, á gangi, dottið og slasast. Hinn slasaði var fluttur á sjúkrahúsið á Ísafirði. Meiðsl hans reyndust ekki alvarleg.
Einn ökumaður var kærður fyrir of hraðan akstur í vikunni. Það var á Ísafirði.
Einn ökumaður var kærður í vikunni fyrir að virða ekki stöðvunarskyldu á gatnamótum í miðbæ Ísafjarðar.
Tveir ökumenn voru kærðir fyrir ölvun við akstur, annar á Ísafirði en hinn á Patreksfirði.
Þrjú umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar á Vestfjörðum í liðinni viku. Eitt þeirra varð líklega þann 10. Janúar þegar ekið var utan í mannlausa bifreið á bifreiðastæði við Fjarðargötu 7 á Þingeyri. Sá er árekstrinum olli gerði ekki eiganda eða lögreglu viðvart. Búi einhver yfir upplýsingum um hvern þarna var á ferðinni er hann hvattur til að hafa samband við lögregluna á Vestfjörðum. Annað umferðaróhapp varð um fyrri part 7. janúar þegar lítil fólksflutningabifreið fauk utan í vegrið á Gemlufallsheiði. Mjög hvasst var á þessum stað á þessum tíma. Ökumaður, sem var einsamall í bifreiðinni, var sóttur og björgunarsveit fengin til aðstoðar. Ekkert slys hlaust af þessu óhappi. Þriðja óhappið varð rétt fyrir hádegið þann 6. janúar þegar bifreið var ekið utan í landbúnaðartæki sem dregið var af dráttarvél á Barðastandavegi. Engin slys urðu á vegfarendum og tjón á ökutækjum ekki alvarlegt.
Lögreglan hefur verið að taka skráningarmerki af þeim ökutækjum sem fallnar eru úr ábyrgðartryggingu sökum vangreiðslu á iðgjaldi. Eigendur ökutækja eru hvattir til að standa skil á skyldutryggingu ökutækja sinna.