31 Desember 2015 10:33
Karl um tvítugt hefur játað aðild sína að vopnuðu ráni í útibúi Landsbankans í Borgartúni í Reykjavík í gær. Hann gaf sig fram í gærkvöld eftir myndbirtingar lögreglu og er nú haldi í hennar. Annar maður á sama aldri, sem var handtekinn í nótt, er jafnframt grunaður um aðild að ráninu. Mennirnir tveir hafa báðir áður komið við sögu hjá lögreglu. Yfirheyrslur standa nú yfir, en rannsókn málsins miðar vel. Búast má við að lögreglan leggi fram gæsluvarðhaldskröfu síðar í dag. Líkt og fram hefur komið barst tilkynning um ránið kl. 13.22 í gær, en ræningjarnir komust undan með óverulega fjármuni. Strax í kjölfarið hófst umfangsmikil leit lögreglu að mönnunum. Bíllinn, sem var notaður við ránið, fannst í Hlíðunum í Reykjavík, en hann reyndist stolinn. Síðar fannst hnífur og eftirlíking af skammbyssu sem lögregla telur að hafi verið notað við ránið. Lögreglan hefur lagt hald á hluta af ránsfengnum.
 
Þrír aðrir menn voru handteknir í þágu rannsóknarinnar í gær, en þeir eru ekki grunaðir um aðild að ráninu sjálfu. Við húsleit á heimili tveggja þeirra fundust fíkniefni sem lögreglan telur að hafi verið ætluð til sölu.
 
Lögreglan vill þakka sérstaklega fyrir fjölmargar ábendingar sem henni bárust í kjölfar myndbirtinga í fjölmiðlum og á fésbókinni.