28 Desember 2015 14:43
Kl.11:55 þann 22. desember sl. barst lögreglu tilkynning um að ekið hafi verið á mannlausa bifreið sem stóð á bifreiðastæði við verslun Bónus á Ísafirði. Sá er ók á bifreiðina mun hafa ekið á brott án þess að gera eiganda eða lögreglu viðvart. Bifreiðin sem ekið var á er af gerðinni Toyota Landcruser, ljósbrún að lit. Vitni að þessu atviki eru hvött til að hafa samband við lögregluna í síma 444 0400.
Um hádegisbilið á Þorláksmessu barst lögreglunni tilkynning um að skemmdir hafi verið unnar á girðingu sem umlykur íþróttavöllinn við Oddagötu á Patreksfirði. Svo virðist sem ekið hafi verið á girðinguna, sem er vírnet, og ekið á brott án þess að gera bæjaryfirvöldum eða lögreglu viðvart. Búi einhver yfir upplýsingum sem geta varpað ljósi á gerandann er sá hinn sami hvattur til að hafa samband við lögregluna í síma 444 0400.
Einn ökumaður var kærður fyrir að aka með fleiri farþega en heimilt er skv. skráningarvottorði viðkomandi bifreiðar. Afskiptin voru höfð af þessum ökumanni að kveldi 27. desember í Óshlíðargöngum.
Tilkynnt var um eitt umferðaróhapp í síðasliðinni viku. Um var að ræða árekstur í miðbæ Ísafjarðar. Engin meiðsl urðu á vegfarendum en tjón á tveimur bifreiðum.
Kl.09:57 þann 26. desember barst lögreglu tilkynning um að bátur hafi sokkið þar sem hann lá mannlaus við bryggjukant í Bolungarvíkurhöfn. Um var að ræða um 60 tonna stálbát. Bátnum hefur verið komið á flot á nýjan leik. Rannsókn á tildrögum þess að báturinn sökk stendur yfir af hálfu lögreglunnar á Vestfjörðum með aðkomu rannsóknarnefndar sjóslysa.
Skemmtanahald gekk vel fyrir sig í umdæminu öllu.