28 Desember 2007 12:00
Nú er ekki úr vegi að rifja upp nokkur mikilvæg atriði úr reglugerð um skotelda enda eru áramótin fram undan. Í reglugerðinni segir m.a. að á því tímabili sem almenn notkun skotelda er leyfð, 28. desember til 6. janúar, er meðferð þeirra þó alltaf bönnuð frá miðnætti til kl. 09:00 að undanskilinni nýársnótt.
Óheimilt er að breyta á nokkurn hátt skoteldi þannig að hann hljóti aðra eiginleika en framleiðandi hans ætlaðist til. Við meðferð og vörslu skotelda skal ítrustu varúðar gætt og ætíð farið eftir skráðum leiðbeiningum.
Við brennu og í næsta nágrenni við hana er öll meðferð flugelda og annarra skotelda sem hætta stafar af vegna ferils þeirra eftir tendrun bönnuð. Þar er aðeins leyfilegt að nota stjörnuljós og blys, þó ekki skotblys.
Þá vill lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hvetja alla til að nota þar til gerð hlífðargleraugu þegar flugeldar eru annars vegar.