21 Desember 2015 16:06
Í síðustu viku slösuðust sautján vegfarendur í níu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu, en í einu slysanna lést karl um áttrætt. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 13. – 19. desember.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt sunnudaginn 13. desember. Kl. 13 varð aftanákeyrsla á Nauthólsvegi. Báðir ökumennirnir sögðust hafa blindast af hádegissólinni áður en óhappið varð. Ökumaður fremri bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Og kl. 16.39 varð árekstur með bifreiðum, sem ekið var um Suðurlandsveg í gagnstæðar áttir á móts við Gunnarshólma. Ökumaður bifreiðarinnar, sem ekið var suður veginn lenti fyrst utan í hlið bifreiðar, sem ekið var til norðurs og síðan framan á annarri, sem ekið var í sömu átt. Úr þeirri bifreið voru ökumaður og farþegi fluttir á slysadeild. Ökumaður hinnar bifreiðarinnar, karl um áttrætt, sem ekið hafði verið til suðurs, var einnig fluttur á slysadeild, en úrskurðaður látinn er þangað var komið.
Mánudaginn 14. desember. kl. 16.16 varð árekstur með bifreið, sem ekið var suður Strandveg og beygt til vinstri, áleiðis inn á Hallsveg, og bifreið, sem ekið var norður Gullinbrú. Báðir ökumennirnir, tveir farþegar úr fyrrnefndu bifreiðinni og farþegi úr þeirri síðarnefndu, voru fluttir á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 15. desember. Kl. 16.48 varð árekstur tveggja bifreiða við gatnamót Breiðholtsbrautar og Norðlingaholts. Ökumaður og farþegi annarrar bifreiðarinnar voru fluttir á slysadeild. Og kl. 22.16 var bifreið ekið á girðingu upp á umferðareyju við Hringbraut og Nauthólsvegar. Ökumaðurinn, sem grunaður var um akstur undir áhrifum lyfja, var fluttur á slysadeild.
Þrjú umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 17. desember. Kl. 17.26 varð fjögurra bifreiða aftanákeyrsla á Miklubraut austan Grensásvegar. Einn ökumannanna var fluttur á slysadeild. Kl. 20.07 varð árekstur með bifreið, sem var ekið suður Lágmúla, áleiðis inn á Háaleitisbraut til austurs, og bifreið, sem ekið var vestur Háaleitisbraut. Farþegi í síðarnefndu bifreiðinni var fluttur á slysadeild. Og kl. 21.48 var bifreið ekið á ljósastaur við Vesturlandsveg hjá frárein að Reykjanesbraut í norður. Ökumaðurinn hafði sofnað undir stýri. Hann, ásamt farþega, voru fluttir á slysadeild.
Föstudaginn 18. desember. kl. 12.50 varð þriggja bifreiða aftanákeyrsla á Vesturlandsvegi í Ártúnsbrekku. Ökumaður og farþegi í einni bifreiðinni leituðu sér aðstoðar á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni – ekki síst núna þegar snjór þekur jörð og búast má við hálku sérhvern dag.