20 Desember 2015 11:04
Lögreglu barst í gærkvöldi tilkynning um mann á sjötugsaldri er væri ógnandi í framkomu með skotvopn á heimili sínu ofan við Grundarhverfi á Kjalarnesi. Tilkynningin var metin alvarleg.
Sérsveit lögreglu var kölluð til og Brautarholtsvegi af öryggisástæðum lokað. Það var gert um klukkan hálf níu. Um einum og hálfum tíma síðar var maðurinn handtekinn í bifreið sinni á leið frá vettvangi. Hann var óvopnaður og hefur fengið viðeigandi aðstoð. Vegurinn var opnaður í kjölfarið.
Vopn, þar á meðal skotvopn, voru í framhaldinu haldlögð af lögreglu á heimili hans.
Aðgerðum lögreglu lauk um klukkan ellefu í gærkvöldi.