14 Desember 2015 11:54
Að kveldi mánudagsins 7. desember, aðfaranótt þriðjudagsins 8. desember og fyrri part þess dags voru töluverðar annir hjá lögreglu og björgunarsveitum vegna óveðursútkalla vítt og breytt um Vestfirði. Foktjónið var einna mest á Patreksfirði og á norðanverðum Vestfjörðum. Lítið var þó um að lausamunir hafi verið að fjúka og valda tjóni en húsþök og veggglæðningar losnuðu. Vegagerðin hafði lokað fjallvegum í umdæminu og þar til bær yfirvöld lokuðu veginum milli Súðavíkur og Skutulsfjarðar tímabundið í öryggisskyni en hætta var talin á flóðum úr hlíðum ofan þessa vega. Almenningur fór greinilega að tilmælum yfirvalda, annars vegar með því að gera fyrirbyggjandi ráðstafanir til að lausamunir hreyfðust ekki úr stað, og hins vegar að vera ekki á ferli meðan veðurhamurinn stóð yfir. Engin slys eða óhöppp urðu og er það vel. Eins og fram hefur komið á vef Orkubús Vestfjarða varð töluvert tjón að loftlínum og hefur þurft að framleiða rafmagn með varaaflsvélum á Vestfjörðum meðan viðgerð stendur yfir.
Einn aðili gisti fangaklefa á lögreglustöðinni á Ísafirði aðfaranótt 9. desember. Sá var ósjálfbjarga sökum ölvunar og gat ekki gert grein fyrir sér. Hann fékk að sofa úr sér vímuna.
Lögreglan hafði afskipti af einum ökumanni fólksbifreiðar sem hafði gert sér að leik að aka um götur hafnarsvæðisins við Suðurtanga á Ísafirði aðfaranótt 14. desember ógætilega og olli auk þess miklum hávaða. Hann má búast við sekt fyrir að raska næturró samborgara sinna með þessum hætti. Nokkuð hefur borið á því að bifreiðaeigendur, einkum ungir, eigi við pústkerfi bifreiða sinna þannig að hljóðið frá ökutækjunum verður háværara en ella. Í sumum tilvikum er um löglegan búnað að ræða en í öðrum ekki. Mikilvægt er þó að ökumenn sýni samborgurum sínum tillitssemi og valdi ekki hávaða a.m.k. að kveldi eða nóttu til meðan flestir hvílast.
Einn ökumaður var kærður í liðinni viku fyrir að aka yfir leyfilegum hámarkshraða í veggöngunum undir Breiðadals-og Botnsheiði. Þá er sami ökumaður grunaður um að hafa ekið í tilgreint sinn undir áhrifum áfengis. Þetta var um miðjan dag í gær, sunnudaginn 13. desember.