1 Desember 2015 11:54
Lögreglan hafði í ýmis horn að líta í liðinni viku vegna hinna ýmsu mála sem komu inn á borð hennar. Skemmtanahald helgarinnar fór fram með ágætum og lítið um útköll á öldurhús bæjarins.
Tveir þjófnaðir voru tilkynntir til lögreglu í liðinni viku, annars vegar var farið inn í bifreið og þaðan stolið peningum en í hinu tilvikinu var farið inn í bílskúr og þaðan tekin áfengi, sem fannst reyndar skammt frá bílskúrnum. Vitað er hver þarna var að verki og hefur viðkomandi viðurkennt að hafa tekið peningana úr bifreiðinni sem og farið inn í bílskúrinn. Málið telst því upplýst.
Um miðja síðustu viku var lögreglu tilkynnt um að eldur logaði í smábát sem staddur var fyrir austan Eyjar. Einn maður var um borð og tókst honum að komast um borð í gúmmíbjörgunarbát og var síðan bjargað um borð í Frá VE. Björgunarfélag Vestmannaeyja, Lóðsinn og þyrla Landhelgisgæslunnar voru kölluð út og tókst fljótlega að ráða niðurlögum eldsins. Báturinn var síðan dregin til lands, en talið er að kviknað hafi í út frá rafmangi. Málið er málið í rannsókn
Eitt umferðaróhapp var tilkynnt til lögreglu í vikunni en um var að ræða árekstur við Sjúkrahúsið þar sem ekið var á kyrrstæða bifreið. Engin slys urðu á fólki.