23 Nóvember 2015 12:05
Þessar vikurnar er Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu að fylgjast sérstaklega með ljósabúnaði ökutækja, en athygli vekur að í mörgum tilvikum er honum ábótavant. Allnokkrir hafa verið stöðvaðir vegna þessa en ýmist vantaði ljós að framan eða aftan en ökumönnunum var góðfúslega bent á að skipta um perur, öryggi eða annað það sem bilað var. Lögreglan hvetur ökumenn til að ganga úr skugga um að ljósin séu í lagi enda er hér um mjög mikilvægt öryggisatriði að ræða.
Lögreglan fylgist enn fremur grannt með notkun öryggisbelta en kæruleysi sumra ökumanna hvað þetta varðar er áhyggjuefni og því er rétt að minna fólk á mikilvægi bílbelta við akstur. Rannsóknir hafa sýnt að líkurnar á því að slasast í umferðinni eru margfalt meiri ef bílbelti eru ekki notuð. Hafa ber í huga að ekki er síður mikilvægt að spenna á sig bílbelti þegar stutt er farið, t.d. þegar skroppið er út í búð, þar sem meirihluti umferðaróhappa á sér stað í þéttbýli.
Setjum öryggið á oddinn og spennum beltin – alltaf!