14 Október 2015 14:27
Hún Alice Charra, fyrrverandi frönskukennari, var glöð í bragði eftir heimsókn á lögreglustöðina í gær, en þá hafði hún endurheimt veski sem hún týndi í miðborginni um síðustu helgi. Alice, sem er franskur ríkisborgari á níræðisaldri, tilkynnti málið strax til lögreglu, en í veskinu voru m.a. peningar, greiðslukort og hið svokallaða græna kort, sem veitir útlendingum í Bandaríkjunum réttindi þar í landi. Alice hefur einmitt verið búsett í Bandaríkjunum til fjölda ára og því var þetta sérstaklega bagalegt að tapa græna kortinu, en hún þurfti í kjölfarið að gera ráðstafanir vegna heimferðarinnar og seinka henni um nokkra daga.
Nú er græna kortið hennar hins vegar komið í leitirnar, sem og allt annað í veskinu, þ.m.t. peningarnir, en það var heiðarlegur og skilvís borgari sem komið með veskið á lögreglustöð í gær og í framhaldinu var haft samband við Alice. Hún kom svo ásamt manni sínum, Igor Eberstein, á lögreglustöðina og sótti veskið og þáðu þau hjónin kaffisopa í leiðinni. Alice átti síður von á að fá veskið aftur, hvað þá með öllu innhaldinu ósnertu og var skiljanlega mjög glöð með þessi málalok.
Alice og Igor vildu endilega láta gott af sér leiða vegna þessa heiðarlega borgara sem skilaði veskinu og áformuðu, í þakklætisskyni, að styrkja gott málefni í borginni af því tilefni. Þess má geta að Alice og Igor, sem starfaði hjá NASA um áratugaskeið, hafa oft komið hingað áður og því má með réttu kalla þau sanna Íslandsvini.