5 Október 2015 16:46
Lögreglan hafði í ýmsu að snúast í vikunni sem leið og sinnti hinum ýmsu verkefnu sem upp komu. Skemmtanahald helgarinnar fór ágætlega fram og engin teljandi útköll á öldurhús bæjarins.
Tvö þjófnaðarmál komu til kasta lögreglu í liðinni viku og var í báðum tilvikum um að ræða fjóra 14 ára drengi. Höfðu þeir stolið neftóbaki og áfengi á tveimur stöðum og sátu við drykkju þegar lögreglan hafði afskipti af þeim. Þeir viðurkenndu þjófnaðinn og er mál drengjanna í meðferð hjá barnaverndaryfirvöldum.
Eitt mál er varðar brot á lyfjalögum kom inn á borð lögreglu í vikunni en um var að ræða sendingu í pósti sem í voru sterar. Viðurkenndi viðtakandi sendingarinnar að vera eigandi efnisins og telst málið upplýst.
Tvö umferðaróhöpp voru tilkynnt lögreglu í liðinni viku og var í öðru tilvikinu um minniháttar árekstur að ræða og engin slys á fólki. Í hinu tilvikinu var um að ræða harðan árekstur á gatnamótum Höfðavegar og Ofanleitisvegar og þurfti að flytja bæði ökutækin í burtu með kranabifreið. Engin slys urðu á fólki.
Laust fyrir hádegi þann 2. október sl. var lögreglan kölluð að HS-veitum vegna vinnuslyss en þarna hafði starfsmaður HS-veitna fengið í gegnum sig 11000 volta straum og fór straumurinn í gegnum líkama mannsins frá hægri hendi og út um vinstra hné. Brenndist maðurinn nokkuð við það og var fluttur á Heilbrigðisstofnun Suðurlands í Vestmannaeyjum til aðhlynningar.