29 September 2015 18:08
Í síðustu viku slösuðust sautján vegfarendur í fimmtán umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 20. – 26. september.
Þrjú umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 21. september. Kl. 17.32 varð gangandi vegfarandi fyrir bifreið á gatnamótum Sogavegar og Réttarholtsvegar. Hann hafði gengið til austurs með Sogavegi og áleiðis yfir Réttarholtsveg þegar bifreiðinni var ekið norður götuna. Gangandi vegfarandinn var fluttur á slysadeild. Kl. 18.23 féll kona af reiðhjóli á stíg í Hljómskálagarðinum þegar innkaupapoki sem hún var með rakst utan í teina framhjólsins. Hún var flutt á slysadeild. Og kl. 18.58 var bifreið ekið á vinstra afturhorn bifreiðar, sem var mannlaus í vegkanti á Stórhöfða á móts við bílasölu Guðfinns. Sól var mjög lágt á lofti. Ökumaðurinn ætlaði að leita sér aðstoðar á slysadeild vegna eymsla í hálsi.
Þrjú umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 22. september. Kl. 8.17 féll maður á reiðhjóli við gatnamót Lækjargötu og Hverfisgötu þegar framhjólið lenti ofan í holu á síðarnefndu götunni. Hann var fluttur á slysadeild. Kl. 11.03 varð árekstur með tveimur bifreiðum á gatnamótum Lönguhlíðar og Flókagötu. Ökumaður annarrar bifreiðarinnar, ófrísk kona, var flutt á slysadeild til skoðunar. Og kl. 12.16 varð aftanákeyrsla á Bústaðavegi við Ásgarð. Ökumaður aftari bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.
Sex umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 24. september. Kl. 0.09 var bifreið ekið vestur Vínlandsleið þegar köttur hljóp fyrir hana. Ökumaðurinn beygði frá með þeim afleiðingum að bifreiðin lenti uppi á hringtorgi, sem þar er. Hann var fluttur á slysadeild. Kl. 6.06 féll hjólreiðamaður af hjólinu í Úthlíð vegna hálku. Hann var fluttur á slysadeild. Kl. 8.01 datt ökumaður á vespu á Suðurbraut við Strandgötu. Vespunni hafði verið ekið niður Suðurbraut í átt að Strandgötu þegar hann rann í hálku og féll af henni. Hann var fluttur á slysadeild. Kl. 11 varð aftanákeyrsla á Sæbraut skammt austan Snorrabrautar. Ökumaður fremri bifreiðarinnar hafði hemlað skyndilega þegar brunnlok skoppaði yfir götuna. Ökumaður aftari bifreiðarinnar náði ekki að stöðva í tæka tíð. Hann var fluttur á slysadeild. Kl. 15.07 varð hjólreiðamaður fyrir bifreið á gömlu Hringbraut móts við Landspítalann. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 19.27 féll hjólreiðamaður við Geirsgötu, á móts við Suðurbugt, þegar hann hjólaði á bandspotta er afmarkar athafnasvæði frá götunni. Hann var fluttur á slysadeild.
Þrjú umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 26. september. Kl. 16.17 varð þriggja bifreiða aftanákeyrsla skammt sunnan við gatnamót Reykjanesbrautar við Bústaðaveg. Ökumenn tveggja bifreiða og farþegi í einni voru fluttir á slysadeild. Kl. 18.19 féll stúlka af bifhjóli á Mosfellsvegi nálægt Kaffi Kjós. Hún var flutt á slysadeild. Og kl. 21.16 var bifreið ekið vestur Vesturlandsveg í Ártúnsbrekku þegar annarri bifreið var beygt áleiðis í veg fyrir hana. Við það beygði ökumaður með þeim afleiðingum að bifreiðin lenti á ljósastaur. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni.