21 Maí 2007 12:00
Anna Elísabet Ólafsdóttir, lögreglumaður á svæðisstöðinni í Kópavogi, var á dögunum tilnefnd til foreldraverðlauna Heimilis og skóla. Í þessu felst mikil viðurkenning á störfum hennar en Anna Lísa hefur lengi látið sig forvarnarmál varða. Það voru samtök foreldrafélaga í Kópavogi, SAMKÓP, sem tilnefndu Önnu Lísu en í umsögn samtakanna um hana mátti m.a. lesa þetta:
Eldmóður Önnu Lísu er með eindæmum og ljóst að skilin milli einkalífs hennar og vinnu eru óljós. Það er sama hvar þú hittir hana – forvarnarmál og það sem gera má betur til að tryggja börnum og unglingum í Kópavogi öruggara umhverfi er ætíð hennar hjartans mál. Hún er sannkallaður hvalreki á fjörur barna og foreldra í Kópavogi – límið sem heldur saman foreldraröltinu og tryggir samfellu í samfélaginu og þar með öllum Kópavogsbúum öruggara umhverfi.
Anna Lísa, t.v., með Hrefnu Gunnarsdóttur, formanni SAMKÓP.