23 Apríl 2007 12:00
Alþjóðleg umferðaröryggisvika stendur yfir dagana 23. – 27. apríl en hún er haldin að frumkvæði Sameinuðu þjóðanna. Íslendingar taka þátt í þessu verkefni en því er m.a. ætlað að vekja athygli á áhrifum umferðarslysa og hvetja til aðgerða á því sviði. Hægt er að fækka umferðarslysum með ýmsu móti en ábyrgðin liggur ekki síst hjá ökumönnum sjálfum.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu leggur ríka áherslu á umferðareftirlit en þessa viku verða lögreglumenn enn sýnilegri ef eitthvað er. Á miðvikudag, fimmtudag og föstudag verða lögreglubifreiðar áberandi og með kveikt á bláum og blikkandi forgangsljósum á þrennum gatnamótum í Reykjavík þar sem mikið er um umferðaróhöpp. Þetta eru eftirtalin gatnamót: Miklabraut/Kringlumýrarbraut, Laugavegur/Suðurlandsbraut/Kringlumýrarbraut og Miklabraut/Grensásvegur. Lögreglubifreiðar verða á áðurtöldum gatnamótum fyrrnefnda daga frá klukkan 12-14 og 15.30-17.30. Hér að neðan má nálgast athyglisverðar upplýsingar um umferðaróhöpp á þessum fjölförnu gatnamótum.
Árekstrar á gatnamótum – tölfræði