1 September 2015 16:35
Landhelgisgæslan hafði í gær afskipti af rannsóknarskipinu ENDEAVOUR sem þá var við störf um 60 sjómílur norðvestur af Ísafjarðardjúpi, en til að stunda rannsóknir innan íslenskrar efnahagslögsögu þarf heimild stjórnvalda. Skipstjóri ENDEAVOUR sagði að skipið væri að stunda dýptarmælingar á svæðinu en skipið hefur hins vegar engar heimildir til að stunda slíkar rannsóknir. Ákvað Landhelgisgæslan þá í framhaldinu að vísa skipinu til hafnar á Ísafirði til frekari rannsóknar á málinu.
ENDEAVOUR kom til Ísafjarðar um klukkan 06:00 í morgun þar sem lögreglan og Landhelgisgæslan tóku á móti skipinu. Að lokinni frekari athugun lögreglu og Landhelgisgæslunnar á málinu hefur skipstjóra ENDEAVOUR verið tilkynnt að skipinu sé óheimilt að stunda rannsóknir á svæðinu án heimildar.