31 Ágúst 2015 17:33
Í liðinni viku var einn ökumaður stöðvaður, grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Lögreglan var þá við almennt umferðareftirlit á Patreksfirði um miðjan dag þann 24. ágúst sl. Grunur lögreglunnar staðfestist þegar ökumaðurinn gaf sýni sem sýndi jákvæða svörun við inntöku fíkniefna.
Almenningur er hvattur til að aðstoða lögreglu við að stemma stigu við framboð og meðhöndlun fíkniefna í umdæminu. Slíkt er hægt að gera með því að hafa beint samband við lögregluna í síma 444 0400 eða í upplýsingasíma lögreglunnar í landinu sem er 800 5005. Allar upplýsingar um meðhöndlun fíkniefna koma að gagni við þessa vinnu lögreglunnar. Fullri nafnleynd er heitið.
Alls bárust fjórar tilkynningar um að ekið hafi verið á lömb í umdæminu í liðinni viku. Þetta var í Ísafjarðardjúpi, í Steingrímsfirði og á Innstrandavegi.
Fjórir ökumenn voru kærðir fyrir að aka yfir leyfilegum hámarkshraða. Þetta var í Vestfjarðagöngum, á Flateyrarvegi og Skutulsfjarðarbraut á Ísafirði.
Tilkynnt var um eitt umferðaróhapp í liðinni viku í umdæminu, utan þess er ekið var á búfénaðinn sem áður var getið um. Umferðaróhappið varð um miðjan dag þann 25. ágúst á bifreiðaplaninu við verslun Kaupfélags Steingrímsfjarðar á Hólmavík. Roskinn ökumaður mun hafa misst vald á bifreið sinni sem valt við planið. Ökumann sakaði ekki.