19 Febrúar 2007 12:00
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjóra og Neyðarlínan hafa skrifað undir nýjan samning við svæðisstjórn björgunarsveita Slysavarnafélagsins Landsbjargar á svæði 1 (höfuðborgarsvæðinu).
Samningurinn fastmótar áralangt samstarf lögreglu og björgunarsveita við leit og björgun að týndu fólki og viðbrögð við slysum. Hann skýrir og skilgreinir boðunarferli björgunarsveita á höfuðborgarsvæðinu, hvenær þær eru boðaðar út og hvaða verkefnum þær eiga að sinna. Þá tekur samningurinn á verkaskiptingu milli aðila. Samkvæmt lögum bera lögreglustjórar ábyrgð á leit og björgun á landi, hver í sínu umdæmi og ber þeim að samhæfa störf þeirra sem koma að leitar- og björgunaraðgerðum. Lögregla kallar björgunarsveitir til aðstoðar ef þörf krefur. Þá eru björgunarsveitir samkvæmt lögunum hjálparlið lögreglu við leit og björgun á landi og við sérstök gæslustörf. Undir það falla verkefni svo sem leit að týndu fólki, hjálpar- og björgunarstörf vegna óveðurs og ófærðar og björgunarstörf vegna slysa fjarri alfaraleið. Við störf sem hjálparlið lögreglu starfa björgunarsveitir á ábyrgð hennar. Svæðisstjórn björgunarsveita fer með tæknilega stjórn björgunarsveita við aðgerðir.
Samningur þessi er byggður á samningi sem gerður var milli lögreglu og björgunarsveita sem er byggður á grundvelli 2. mgr. 3. gr. laga um björgunarsveitir og björgunarsveitarmenn nr. 43/2003 sbr. og 3. mgr. 6. gr. lögreglulaga nr 90/1996 um samstarf lögreglu og björgunarsveita sem lýtur yfirstjórn lögreglustjóra í hverju umdæmi og reglugerðar nr. 289/2003.
Þorvaldur Hallsson, Haraldur Johannessen, Stefán Eiríksson og Þórhallur Ólafsson undirrita samninginn.
Þorvaldur Hallsson, Haraldur Johannessen, Stefán Eiríksson og Þórhallur Ólafsson undirrita samninginn.