11 Ágúst 2015 12:53
Í síðustu viku slösuðust fimm vegfarendur í fimm umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 2. – 8. ágúst.
Sunnudaginn 2. ágúst kl. 9.42 hjólaði maður á reiðhjóli út af bifreiðastæði við Gnoðarvog og inn í hóp hjólreiðafólks á leið austur götuna. Einn hjólreiðamannanna í hópnum var fluttur á slysadeild.
Þrjú umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 6. ágúst. Kl. kl. 1.12 féll kona af reiðhjóli á Barónsstíg. Hún var flutt á slysadeild. Kl. 10.37 var bifreið ekið á vegrið á Háaleitisbraut við Miklubraut. Ökumaðurinn, roskinn karlmaður, var fluttur á slysadeild til skoðunar. Og kl. 11.53 var gangandi vegfarandi á leið til suðurs áleiðis yfir Miklubraut við Lönguhlíð fyrir bifreið sem ekið var austur götuna. Hann var fluttur á slysadeild með höfuðmeiðsl.
Laugardaginn 8. ágúst kl. 17.16 var bifreið ekið um Vallarstræti í átt að Austurvelli og á gangandi vegfaranda, sem þar var á ferð. Eftir óhappið ók ökumaðurinn af vettvangi. Hinn gangandi var fluttur á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni.