18 Ágúst 2015 10:37
Í síðustu viku slösuðust tólf vegfarendur í níu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 9. – 15. ágúst.
Fjögur umferðarslys voru tilkynnt sunnudaginn 9. ágúst. Kl. 4.45 var bifreið ekið yfir fót á manni á Hverfisgötu. Ökumaðurinn ók á brott af vettvangi. Hann fannst skömmu síðar í bifreiðinni á Skólavörðustíg eftir að hafa ekið þar utan í tvær mannlausar bifreiðar og utan í tvo steinstólpa við götuna. Hann var grunaður um að vera undir áhrifum áfengis. Gangandi vegfarandinn var fluttur á slysadeild. Kl. 15.30 sprakk hjólbarði bifreiðar, sem ekið var austur Suðurlandsveg á móts við Sandskeið. Við það missti ökumaður stjórn á bifreiðinni með þeim afleiðingum að hún hafnaði utan vegar. Ökumaður og farþegi voru fluttir á slysadeild. Kl. 17.15 féll ökumaður af bifhjóli á Hvalfjarðarvegi við Hvammsvík eftir að hafa lent í möl utan vegkants. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 19.45 var bifreið ekið aftan á hestakerru bifreiðar á Vesturlandsvegi við Víðinesveg. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.
Þriðjudaginn 11. ágúst kl. 20.52 mældu lögreglumenn á Sæbraut ökumann bifhjóls á tæplega 150 km hraða við Súðarvog. Þegar þeir gáfu ökumanninum stöðvunarmerki féll hann við með þeim afleiðingum að flytja varð hann á slysadeild. Í ljós kom að ökumaðurinn hafði áður verið sviptur ökuréttindum.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 12. ágúst. Kl 19.39 var bifreið ekið á steinvegg við Fjarðartorg, gatnamót Strandgötu og Lækjargötu. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 21.47 var bifreið við Vífilsstaðavatn ekið í veg fyrir bifreið sem á sama tíma var ekið um Vatnsendaveg. Ökumaður annarrar bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.
Fimmtudaginn 13. ágúst kl. 21.42 var bifreið ekið suður Garðastræti áleiðis yfir Túngötu þegar köttur hljóp í veg fyrir bifreiðina. Við það beygði ökumaður undan, en bifreiðin hafnaði við það á ljósstaur við gatnamótin. Ökumaður og farþegi voru fluttir á slysadeild.
Laugardaginn 15. ágúst kl. 12.55 varð aftanákeyrsla á Bústaðavegi við Flugvallarveg. Ökumaður og farþegi í fremri bifreiðinni voru fluttir á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni.