20 Júlí 2015 15:46
Tiltölulega rólegt var yfir Eyjunni þessa vikuna, eins og við var að búast svona skömmu fyrir Þjóðhátíð.
Af umferðinni er það að frétta að einn ökumaður var stöðvaður vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna. Einn ökumaður var sektaður fyrir að tala í símann við aksturinn án þess að nota til þess handfrjálsan búnað og annar var sektaður fyrir að leggja bifreið sinni ólöglega. Tilkynnt var um eitt umferðaróhapp í vikunni en það var minniháttar og engin meiðsli á fólki.
Ein líkamsárás var kærð til lögreglu og er það mál í rannsókn. Þá þurfti lögreglan að skakka leikinn í eitt skipti er ágreiningur var milli tveggja aðila.
Slys varð í Spröngunni er kona féll þar og var hún flutt með sjúkrabifreið á heilsugæsluna til aðhlynningar. Þá varð slys við Lundann er maður féll í götuna. Hann var einnig fluttur með sjúkrabifreið á heilsugæsluna til aðhlynningar.
Nú þegar líða fer að Þjóðhátíð vill lögreglan minna á fíkniefnasímann. Hvetur lögreglan fólk sem hefur yfir að búa vitneskju um fíkniefnalagabrot að hafa samband og tilkynna um það. Nánar um fíkniefnasímann hér að neðan.
Upplýsinga-/fíkniefnasíminn 800 5005: Þegar hringt er í upplýsingaasímann svarar talhólf. Þar getur þú lesið inn þær upplýsingar sem þú vilt koma á framfæri við lögreglu. Hægt er að gefa upplýsingarnar upp nafnlaust. Ef lögreglu er heimilt að hafa samband eða þú óskar þess þarf að taka það fram og gefa upplýsingar um nafn, símanúmer eða netfang. Einnig má hafa samband í gegnum netföngin info@rls.is eða vestmannaeyjar@logreglan.is.