6 Júlí 2015 10:26
Í síðustu viku slösuðust níu vegfarendur í átta umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 28. júní – 4. júlí.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 29. júní. Kl. 7.21 var bifreið ekið á ljósastaur á Gullinbrú gegnt Olís. Ökumaðurinn hafði „dottið út“ um stund og mundi ekki eftir aðdraganda óhappsins. Hann ætlaði að leita sér sjálfur aðstoðar á slysadeild. Og kl. 9.59 rann mannlaus bifreið í Lækjarsmára á konu, sem festist undir henni með fæturnar. Konan hafði lagt bifreiðinni í stæði, gleymt að setja gírstöngina í „P“, stigið út og gengið í áttina frá henni þegar hún byrjaði að renna aftur á bak með framangreindum afleiðingum. Eftir að hafa verið losuð undan bifreiðinni var konan flutt á slysadeild.
Þriðjudaginn 30. júní kl. 21.46 var bifreið ekið á stórt grjót við Lónsbraut með þeim afleiðingum að hún stórskemmdist. Ökumaður, 16 ára, var fluttur á slysadeild.
Miðvikudaginn 1. júlí kl. 21.59 varð þriggja bifreiða aftanákeyrsla á Miklubraut austan Háaleitisbrautar. Tveir ökumannanna ætluðu að leita sér aðstoðar á slysadeild vegna eymsla.
Fimmtudaginn 2. júlí kl. 19.34 varð reiðhjólamaður fyrir bifreið á Leirubakka skammt frá Stöng. Hann var fluttur á slysadeild.
Þrjú umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 4. júlí. Kl. 6.04 varð gangandi vegfarandi fyrir bifreið á Bústaðavegi austan Háaleitisbrautar. Hann var fluttur á slysadeild. Ökumaðurinn er grunaður um að hafa verið undir áhrifum fíkniefna við aksturinn. Kl. 9.48 féll hjólreiðamaður á götuna þar sem hann var að hjóla yfir vestur Sörlaskjól, yfir hraðahindrun gegnt húsi nr. 88. Maðurinn hafði sleppt höndum af stýrinu stutta stund með framangreindum afleiðingum. Hann missti meðvitund og var fluttur á slysadeild. Og kl. 14.52 féll hjólreiðamaður í Fagrahvammi gegnt húsi nr. 1. Hann lenti með andlitið á götuna og var fluttur á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara varlega.