26 Júní 2015 17:34
Þessir kanadísku ferðamenn voru afar glaðir eftir heimsókn til Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í dag, en erindi þeirra var að sækja nýjan síma, sem einn þeirra hafði glatað í skoðunarferð um borgina fyrr í dag. Skilvís vegfarandi fann símann og kom honum til lögreglu, sem tókst að finna eigandann eftir allnokkrum krókaleiðum. Með því að skoða símann og síðan fésbókina tókst að komast í samband við konu í Kanada, en hún fékk upphringingu frá íslensku lögreglunni mjög snemma í morgun að kanadískum staðartíma! Sú gat vísað á mann á Norðurlandi sem hugðist vera kanadísku ferðamönnunum innan handar með gistiaðstöðu þar nyrðra. Sá gat komið skilaboðum til ferðamannanna, sem í kjölfarið komu á lögreglustöðina og sóttu símann eins og áður sagði. Þess má geta að konurnar á myndinni eru mæðgur, en maður þeirra eldri var af íslenskum ættum. Ekkjan heimsækir Ísland nú öðru sinni og er afar hrifin af landi og þjóð. Og ekki var að heyra að hrifningin minnkaði eftir að týndi síminn kom í leitirnar.