22 Júní 2015 14:49
Þá er tónlistarhátíðinni Secret Solstice, sem haldin var í Laugardal um helgina, lokið. Skipulag og framkvæmd hátíðarinnar var mjög faglegt í alla staði og til fyrirmyndar. Fjöldi öryggisvarða var við störf og einnig var stór hópur fólks sem fór um hátíðarsvæðið og týndi upp allt rusl er hátíðargestir hentu frá sér. Þegar hátíðarhöldum var lokið á kvöldin var svæðið hreint og tilbúið til notkunar næsta dag. Lögreglumenn sem voru við vinnu um helgina voru almennt ánægðir með hvernig til tókst. Gestir voru jákvæðir í garð lögreglu og fór drjúgur tími í það að sitja fyrir á myndum. Hópur óeinkennisklæddra lögreglumanna var á ferðinni og einbeitti sér að líklegum sölumönnum fíkniefna utan við svæðið. 13 einstaklingar voru kærðir fyrir vörslu fíkniefna og þar af þrír fyrir sölu. Tveir voru fluttir á slysadeild vegna ofneyslu MDMA fíkniefna.