20 Maí 2005 12:00
Lögreglan í Reykjavík hefur undanfarna mánuði aukið eftirlit sitt með veitingahúsum og gististöðum. Á fyrstu fjórum mánuðum ársins var farið í 697 eftirlitsferðir í veitingahús og gististaði. Alls eru 486 aðilar með veitingaleyfi í Reykjavík, Seltjarnarnesi og Mosfellsbæ en skipta má þeim í þrjá hópa, veitingaleyfi án áfengis ( t.d. gistiheimili), veitingaleyfi með áfengi ( t.d. hótel og almennir veitingastaðir) og veitinga- og skemmtistaðir. Ef eitthvað athugavert er við starfsemina er viðkomand send áskorun. Alls hafa verið sendar 18 áskoranir það sem af er árinu. Helstu athugasemdir snúa að aldri og fjölda gesta og lokunartíma. Þá hefur áfengi verið innsiglað á nokkrum veitingastöðum, þar sem áfengis- og veitingaleyfi hafa verið útrunnin. Ef ástand er verulega ábótavant þá getur komið til þess að rýma þurfi viðkomandi veitingastað og honum lokað. Nýlega kom til þess þar sem við eftirlit kom í ljós að verulegur hluti gesta var undir 18 ára aldri. Yngsti gesturinn sem var aldur var athugaður var fæddur 1989 og því um 16 ára gamall. Staðnum var lokað um hálfþrjú að nóttu.