18 Maí 2015 16:38

Vikan og helgin var frekar róleg hjá lögreglu og engin alvarleg mál sem upp komu.  Skemmtanahaldið fór ágætlega fram en eitthvað var þó um pústra, en engar kærur liggja þó fyrir.  Eitthvað var um að kvartað var yfir hávaða í tenglsum við skemmtanahald helgarinnar.

Einn þjófnaður var tilkynntur til lögreglu í vikunni en um var að ræða þjófnað á reiðhjóli þar sem það var við Íþróttamiðstöðina.  Talið er að hjólinu hafi verið stolið að kvöldi 7. maí sl.  Um er að ræða svart GT reiðhjól, 21. gíra, brettalaust og búið að festa púða á hnakkinn.  Þeir sem einhverjar upplýsingar hafa hvar hjólið er niðurkomið eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við lögreglu.

Tvö vinnuslys voru tilkynnt til lögreglu í vikunni.  Í fyrra tilvikinu var um að ræða slys á Faxastíg þar sem maður féll af þaki.  Maðurinn var með meðvitund þegar sjúkralið og lögregla kom á staðinn og var fluttur á Heilsugæslu Vestmannaeyja til skoðunar.   Seinna tilvikið var um borð í Þórunni Sveins VE-401 þar sem maður sem var að vinna við löndum féll ofan í lest skipsins.  Talið er að fallið hafi verið um 6 metrar.  Maðurinn fann til eymsla í höfði, baki og öðrum fæti eftir fallið og var fluttur á Heilsugæslu Vestmannaeyja til skoðunar.

Tvær kærur liggja fyrir vegna brota á umferðarlögum og er í báðum tilvikumum um að ræða ólöglega lagningu ökutækja.

Lögreglan hvetur eigendur ökutækja að skipta yfir á sumardekkin en búast má við því að næstu daga verið farið að beita sektum vegna aksturs á negldum hjólbörðum.  Sekt fyrir hvern nelgdan hjólbarða er kr. 5000,-.