24 Mars 2015 13:39
Nú þegar reiðhjólum fer að fjölga í umferðinni á höfuðborgarsvæðinu er ekki úr vegi að birta tölur um fjölda reiðhjólaslysa á síðasta ári um leið og reiðhjólamenn, sem og allir vegfarendur, eru hvattir til að fara varlega og sýna tillitssemi í hvívetna. Árið 2014 voru 94 reiðhjólaslys tilkynnt til Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, en í þeim slösuðust 93 reiðhjólamenn. Í næstum helmingi tilvika (45) áttu slysin sér stað þegar bifreið var ekið á reiðhjólamann. Í nokkrum tilfellum (10) urðu slys þegar reiðhjól hafnaði á kyrrstæðum bíl, kyrrstæðum hlut eða gangandi vegfaranda. Sömuleiðis urðu nokkur slys (7) þegar reiðhjól rákust saman. Samkvæmt skráningu var enn fremur um að ræða mörg tilvik (32) sem flokkast sem fall af reiðhjóli.