23 Mars 2015 15:16
Í síðustu viku slösuðust þrettán vegfarendur í tíu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 15. – 21. mars.
Þrjú umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 16. mars. Kl. 14.17 rákust saman bifreið og rafmagnsvespa á Sogavegi á móts við Sogaveg 148. Ökumaður vespunnar var fluttur á slysadeild með sjúkrabifreið. Kl. 15.13 varð eldri maður fyrir strætisvagni á skiptistöð í Mjódd. Hann ætlaði að leita aðstoðar á slysadeild. Og kl. 15.31 meiddist ökumaður í baki eftir aftanákeyrslu þegar ökumaður var að reyna að forðast að aka ofan í holu á malbiki í Austurhrauni. Hann var fluttur á slysadeild.
Þriðjudaginn 17. mars kl. 16.14 varð aftanákeyrsla á Sæbraut við Skeiðarvog. Ökumaður og farþegi fremri bifreiðarinnar kenndu til eymsla í hálsi eftir óhappið voru þeir fluttir með sjúkrabifreið á slysadeild til frekari skoðunar.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 18. mars. Kl. 12.11 varð árekstur með bifreið, sem ekið var vestur Breiðholtsbraut og bifreið, sem ekið var ekið suður Suðurfell. Umferðarljós eru við gatnamótin. Ökumenn beggja bifreiðanna voru fluttir á slysadeild. Og kl. 12.29 var bifreið ekið á steypta súlu í bílastæðahúsinu við Vesturgötu. Ökumaður var fluttur á slysadeild með sjúkrabifreið.
Fimmtudaginn 19. mars kl. 9.20 varð árekstur með bifreið, sem var ekið austur Vesturlandsveg, um vinstri akrein á afrein upp á Höfðabakkabrúna á leið til vinstri, áleiðis norður Höfðabakka, og bifreið, sem var ekið suður Höfðabakka. Ökumaður annarrar bifreiðarinnar kenndi til eymsla í hálsi og var hvattur til að leita sér aðstoðar vegna þess.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 20. mars. Kl. 8.27 varð harður árekstur tveggja bifreiða á Bíldshöfða á móts við Bíldshöfða 14. Ökumaður og eins árs farþegi úr annarri bifreiðinni voru fluttir á slysadeild. Ökumaður hinnar bifreiðarinnar ætlaði sjálfur að leita sér læknisaðstoðar vegna eymsla. Og kl. 17.18 var bifreið ekið á dyrakarm bifreiðageymsluhúss við Blásali. Ökumaður kenndi til eymsla í hálsi og var honum ekið á slysadeild til aðhlynningar.
Laugardaginn 21. mars kl. 5.04 varð umferðaróhapp í Lækjargötu gegnt MR. Bifreið hafði orðið rafmagnslaus á götunni og hafði ökumaður náð að ýta bifreiðinni með hjálp þeirra sem voru á vettvangi út í kant og fengið start hjá öðrum ökumanni. Um leið og bifreiðin hrökk í gang sleppti ökumaður kúplingunni með þeim afleiðinum að bifreiðin tók kipp og rann áfram um einn til einn og hálfan metra, nákvæmlega þegar farþegi var hálfur á leið inn í bifreiðina og fékk hann hurðafalsið í síðuna og datt svo út úr bifreiðinni. Farþeginn var líkast til með brákuð rifbein ef ekki brotinn, en vildi ekki fara á slysadeild; sagðist myndi gera það síðar yrði þess þörf.
Allir vegfarendur; gangandi, hjólandi og akandi, þurfa ávallt að vera vakandi og fara varlega. Sérstaka aðgát þarf að sýna þegar veður er vont og skyggni takmarkað – ekki síst í hálkutíð. Það liggur engum svo mikið á að hann geti ekki ekið varlega þegar það á við. Það að hafa jafnan hæfilegt bil á milli ökutækja verður seint vanmetið. Sérstaka aðgát skal hafa við gatnamót. Notkun samskipta- og samfélagsmiðla er alls óviðeigandi við akstur – enda stórhættuleg. Ökumenn – sýnið örlæti og gefið stefnuljós.