10 Janúar 2013 15:57
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði kannabisræktun í iðnaðarhúsnæði á tveimur stöðum í Hafnarfirði í gær. Við húsleitir fundust samanlagt um 1200 kannabisplöntur á ýmsum stigum ræktunar. Karl á fimmtugsaldri var handtekinn í þágu rannsóknarinnar en hann játaði aðild að málunum. Framkvæmd var húsleit á heimili mannsins, sem hefur áður komið við sögu hjá lögreglu, en þar var lagt hald á nokkra tugi gramma af marijúana, verulegt magn af áfengi, auk peninga.
Fyrrnefndar aðgerðir eru liður í að hamla gegn sölu og dreifingu fíkniefna en sem fyrr minnir lögreglan á fíkniefnasímann 800-5005. Í hann má hringja nafnlaust til að koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál. Fíkniefnasíminn er samvinnuverkefni lögreglu og tollyfirvalda og er liður í baráttunni við fíkniefnavandann.