19 Janúar 2015 15:23
Vikan 12. janúar til 19. janúar
Þrjú minniháttar umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglu í liðinni viku. Þá voru þrír ökumenn kærðir fyrir of hraðan akstur, tveir innanbæjar á Ísafirði og einn í Bolungarvíkurgöngunum. Þá var einn ökumaður kærður vegna gruns um meinta ölvun við akstur. Þá var einn ökumaður grunaður um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna.
Sunnudaginn 18. jan., var tilkynnt til lögreglu að snjóflóð hefði fallið ofan Urðarvegar í Eyrarfjalli. Fljótlega kom í ljós að tveir menn voru þar á ferð og lenti annar þeirra í flóðinu. Lögregla fór strax á staðinn og svæðisstjórn björgunarsveita á svæði 7 var virkjuð. Lögregla, björgunarsveitarmenn og sjúkraflutningsmenn á Ísafirði og Hnífsdal fóru á vettvang til björgunaraðgerða. Annar aðilinn sem þarna var á ferð lenti í flóðinu hlaut áverka en þó ekki lífshættulega. Hann var fluttur á sjúkrahúsið á Ísafirði. Um var að ræða fjallaskíðamenn sem voru á göngu upp hlíðina og hugðust renna sér niður hana en þegar upp var komið féll snjóflóðið. Engin snjóflóðahætta var í byggð.
Föstudaginn 16. var talin snjóflóðahætta á reit 9 í Skutulsfirði og var það svæði rýmt, ekki er íbúðabyggð á þessu svæði, aðeins tvö atvinnuhúsnæði. Daginn eftir þann 17. var hættustigi aflýst.
Um miðjan dag á fimmtudag þann 15. var tilkynnt til lögreglu að snjóflóð hefði fallið á Súðavíkurhlíð og í framhaldin var veginum lokað. Vegurinn var síðan lokaður fram laugardaginn 17. opnaður þá um morguninn. Föstudaginn 16 var tilkynnt um snjóflóð á Flateyrarveg og í framhaldinu var veginum lokað og hann opnaður aftur fyrir umferð þann 17. um morguninn. Þá féll einnig snjóflóð á Hnífsdalsveg á föstudeginum og var vegurinn lokaður fram eftir degi. Hann var opnaður á ný í nokkrar klukkustundir en síðan var lokað aftur frá kvöldi og fram til morguns af öryggisástæðum.
Afar gott samstarf er með almannavörnum, lögreglu og starfsmönnum Vegagerðarinnar, Snjóflóðaseturs Veðurstofu Íslands og björgunarsveitum varðandi hættumat og öryggisráðstafanir.