12 Janúar 2015 15:49
Í síðustu viku slösuðust fjórir vegfarendur í tveimur umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 4. – 10. janúar.
Föstudaginn 9. janúar kl. 0.09 var bifreið ekið á enda vegriðs við Reykjanesbraut á móts við álverið í Straumsvík. Ökumaðurinn hafði misst vald á bifreiðinni í hálku. Hann og tveir farþegar voru fluttir á slysadeild.
Laugardaginn 10. janúar kl. 20.14 varð gangandi vegfarandi, ungur drengur, fyrir bifreið á gangbraut við gatnamót Hringbrautar og Hofsvallagötu. Bifreiðinni hafði verið ekið vestur Hringbraut. Drengurinn kenndi til nokkurra eymsla í höfði, öxlum og víðsvegar um líkamann. Hann var fluttur á slysadeild. Veður var kalt og stillt, snjóþekja á vegum og hálka.
Allir vegfarendur; gangandi, hjólandi og akandi, þurfa ávallt að vera vakandi og fara varlega. Sérstaka aðgát þarf að hafa þegar veður er vont og skyggni takmarkað – sem og í hálkutíð. Það liggur engum svo mikið á að hann geti ekki ekið hægt þegar það á við.
Ökumenn – sýnið örlæti og gefið stefnuljós.