30 Desember 2014 18:13
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur tekið saman bráðabirgðatölur um fjölda helstu brota árið 2014. Hafa ber þann fyrirvara á þessum upplýsingum að tölur fyrir árið 2014 eiga enn eftir að breytast. Þessar upplýsingar gefa þó innsýn í það hvert stefnir.
Fram kemur að á höfuðborgarsvæðinu fækkaði hegningarlagabrotum um fjögur prósent samanborið við árið 2013. Þar af fækkaði kynferðisbrotum hlutfallslega mest, eða um 40 prósent. Þjófnuðum fækkaði um sex prósent. Þar af fækkaði farsímaþjófnuðum mest, eða um 25 prósent. Innbrotum fjölgaði hins vegar um fjögur prósent á milli ára og fjölgaði innbrotum í ökutæki hlutfallslega mest.
Ofbeldisbrotum fjölgaði um átta prósent miðað við árið 2013 og hefur þeim verið að fjölga undanfarin ár. Rúmlega helmingur ofbeldisbrota árið 2014 áttu sér stað að kvöld- eða næturlagi og um 40 prósent áttu sér stað í miðborg Reykjavíkur. Kynferðisbrotum fækkaði umtalsvert árið 2014 samanborið við árið 2013, eða um 40 prósent.
Fíkniefnabrotum fjölgaði um 14 prósent á milli ára. Fjöldi mála sem tengist innflutningi á fíkniefnum fjölgaði hlutfallslega mest, eða um 40 prósent. Á sama tíma fækkaði málum tengdum framleiðslu fíkniefna, en þannig brotum hefur fækkað stöðugt síðan 2011. Hafa ber í huga að þessar tölur ná einungis til þeirra mála sem lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu stofnar til. Auk þessara mála kemur fíkniefnadeild LRH að rannsókn fjölda annarra fíkniefnabrota sem koma upp víða um landið. Árið 2014 lögðu lögregla og tollgæsla hald á mesta magn maríhúana sem tekið hefur verið hér á landi frá því að skráningar hófust. Alls var lagt hald á rúmlega 55 kíló. Hins vegar var lagt hald á töluvert minna magn af amfetamíni og ecstasy en fyrri ár.
Af umferðarlagabrotum má nefna að tilvikum vegna aksturs undir áhrifum ávana- og fíkniefna heldur áfram að fjölga og voru þau tilvik í fyrsta sinn fleiri en brot þar sem grunur var um ölvun við akstur. Að sama skapi fjölgaði óhöppum tengdum fíkniefnaakstri þónokkuð á milli ára. Í heild fjölgaði umferðaslysum um 12 prósent miðað við árið 2013.