9 Maí 2023 08:30
- 42% brotaþola eru undir 18 ára í tilkynntum kynferðisbrotum til lögreglu.
- Lögreglunni bárust tilkynningar um 42 nauðganir fyrstu þrjá mánuði ársins, sem samsvarar 9% fækkun frá síðustu þremur árum þar á undan.
- Alls voru tilkynnt 123 kynferðisbrot til lögreglu fyrstu þrjá mánuði ársins 2023, eða um 10 brot á viku.
Ríkislögreglustjóri hefur birt skýrslu um kynferðisofbeldi fyrstu þrjá mánuði ársins á vef lögreglunnar. Alls voru tilkynnt 123 kynferðisbrot til lögreglu fyrstu þrjá mánuði þessa árs, eða 25% færri brot en voru skráð að meðaltali á sama tímabili síðustu þrjú árin á undan. Hluti brotanna var tilkynntur á tímabilinu en átti sér stað fyrr. Þegar einungis er litið til þeirra kynferðisbrota sem áttu sér stað fyrstu þrjá mánuði ársins þá fækkaði þeim um 39% samanborið við meðaltal sama tímabils síðustu þriggja ára á undan.
Þannig fækkar tilkynningum í öllum brotaflokkum kynferðisbrota.
Tilkynningum um kynferðisbrot fækkar frá fyrri árum.
Lögreglunni bárust tilkynningar um 42 nauðganir fyrstu þrjá mánuði ársins, sem samsvarar 9 % fækkun frá meðaltali á sama tímabili síðustu þrjú ár á undan. Þar af áttu 21 nauðgun sér stað á tímabilinu. Tilkynnt kynferðisbrot gegn börnum voru 27 talsins, sem er 22% fækkun mála frá 2022 og blygðunarsemisbrot voru 9 talsins sem er svipað og árið 2022 en nokkur fækkun miðað við 2020 og 2021 á sömu tímabilum. Þá bárust 45 tilkynningar sem falla undir önnur kynferðisbrot en þar er í flestum tilvikum um að ræða stafræn kynferðisbrot eða kynferðisleg áreitni.
Meðalfjöldi tilkynntra brota til lögreglu, burtséð frá því hvenær þau áttu sér stað, fyrstu þrjá mánuði ársins voru um tíu brot á viku.
Meðalaldur brotaþoli töluvert lægri en grunaðra.
Frá og með árinu 2023 varð skráning brotaþola kynferðisbrota í málaskrá lögreglu markvissari, en áður voru þeir aðeins skráðir í um 75% kynferðisbrotamála. Fjöldi brotaþola var 92 og þar af 90% kvenkyns fyrstu þrjá mánuði ársins. Meðalaldur brotaþola var umtalsvert lægri en grunaðra eða 22 ár, og voru 42% þeirra undir 18 ára í öllum tilkynntum kynferðisbrotamálum. Fjöldi grunaðra í kynferðisbrotum var 94, þar af tæplega 94% karlkyns. Meðalaldur grunaðra var 35 ár, þar af 13% undir 18 ára.
Þannig er rúmlega tíu ára aldursmunur á meðalaldri brotaþola og grunaðra. Á ofbeldisgátt 112.is má finna leiðarvísir um meðferð kynferðisbrota í réttarvörslukerfinu. Nú síðast hefur leiðarvísirinn verið uppfærður með upplýsingum um meðferð mála fyrir 15-17 ára ungmenni. Unnið er að því að uppfæra upplýsingar um meðferð kynferðisbrota þeirra sem eru undir 15 ára.
Þá hefur heilbrigðisráðherra skipað starfshóp um kortleggja og samræma fyrirkomulag varðandi aðkomu heilbrigðisstarfsfólk þegar upp kemur grunur um kynferðisofbeldi í garð barna. Hópnum er m.a. ætlað að skýra boðleiðir milli lögreglu, barnaverndar og heilbrigðiskerfisins en ekki hefur verið til staðar samræmt verklag um heilbrigðisþjónustu við börn yngri en 18 ára vegna kynferðisofbeldis, sjá nánar hér.
Nauðganir eiga sér frekar stað um helgar og nóttu.
Í skýrslunni má finna greiningu á tímasetningu allra kynferðisbrota sem tilkynnt eru til lögreglu. Hún leiðir í ljós að flest brotin eiga sér stað á virkum dögum, en þegar eingöngu er rýnt í tímasetningu nauðgana má sjá að þær eiga sér flestar stað um helgar og þar af rúmur helmingur að nóttu til.
Kynferðisbrot – fyrstu 3 mánuðir ársins 2023
Nánari upplýsingar veitir Gunnar Hörður Garðarsson, samskiptastjóri ríkislögreglustjóra, gunnarhg@logreglan.is