7 September 2007 12:00
Þann 4. september s.l. hófu 37 nýnemar nám á fyrstu önn grunnnámsdeildar Lögregluskóla ríkisins. Námið á önninni tekur fjóra mánuði og í janúar 2008 fara nemendurnir í átta mánaða starfsþjálfun í lögreglunni. Að starfsþjálfun lokinni, í september 2008, hefst síðan þriðja önnin og henni lýkur með útskrift í desember 2008.
Af þessum nýnemum hafa 27 starfað sem afleysingamenn í lögreglunni, allt frá tveimur mánuðum til tæplega þriggja ára. Að þessu sinni er meðalaldur nýnema 26,89 ár, sem er í hærra lagi miðað við undanfarna árganga. 8 konur eru í hópi nýnemanna eða 21,62%.
14 af nýnemunum hafa lokið stúdentsprófi, 7 þeirra hafa lokið iðnnámi, 3 hafa lokið háskólanámi og 4 til viðbótar hafa stundað háskólanám. Starfsreynsla nýnemanna er margvísleg en í hópnum eru m.a. hársnyrtir, safnvörður, skipstjóri, trésmiður, bakari, tveir fangaverðir, bifvélavirki, tollvörður, tónlistarkennari, öryggisráðgjafi og flugþjónn.
Meðal þess sem nýnemarnir hafa sem áhugamál er ísklifur, kajakróður, veiðar, akstursíþróttir, strandblak, sagnfræði, flúðasiglingar og myndlist.
Þetta er annar nýnemahópurinn sem er tekinn inn í skólann á þessu ári og nú eru 45 nemendur í starfsþjálfun sem hófst í maí s.l. og stendur í átta mánuði. Alls stunda því 82 nemendur nú grunnnám við skólann á sama tíma.