11 Janúar 2007 12:00
Þrjátíu og tvö umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á síðasta sólarhring. Flest voru þau minniháttar og fáir þurftu að leita sér aðstoðar á slysadeild. Fullorðinn karlmaður skrámaðist nokkuð þegar bíll hans hafnaði í Tjörninni í gærmorgun. Eftir hádegi var kona, nokkru yngri, flutt á slysadeild eftir árekstur tveggja bíla á Bústaðavegi. Og síðdegis var ekið á 16 ára pilt á reiðhjóli á gangbraut á gatnamótum Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar. Pilturinn, sem var ekki með reiðhjólahjálm, slasaðist lítilsháttar. Ökumaður bílsins og farþegi hans voru fluttir á slysadeild en bíll þeirra hafnaði á öðru ökutæki eftir að hafa keyrt á piltinn á reiðhjólinu.
Fimmtán ökumenn voru teknir fyrir hraðakstur í umdæminu í gær en ekki var um neinn ofsaakstur að ræða. Þá stöðvaði lögreglan för ökumanns í gærmorgun en sá, karlmaður á þrítugsaldri, hafði þegar verið sviptur ökuleyfi. Annar ökumaður, karlmaður á líkum aldri, gat ekki framvísað ökuskírteini þegar eftir því var leitað. Við eftirgrennslan reyndist hann aldrei hafa öðlast ökuréttindi. Þá var bíll hans ótryggður og því voru skráningarnúmerin klippt af.