3 Október 2016 10:24
Tveir ökumenn voru kærðir fyrir að aka undir áhrifum fíkniefna. Báðir ökumennirnir voru stöðvaðir í akstir á Ísafirði. Annar þeirra hafði verið sviptur ökuréttindum fyrr í haust vegna aksturs undir áhrifum fíkniefna. Í bifreið annars ökumannsins fundust innan við 10 gr af kannabisefnum.
Einn maður gisti fangageymslu á Ísafirði aðfaranótt 29. september en hann var handtekinn kvöldið áður ölvaður og æstur á veitingahúsi á Ísafirði. Hann mun hafa brotið rúðu og valdið skemmdum á staðnum. Maðurinn var látinn sofa úr sér vímuna og ná áttum áður en honum var hleypt út.
Ölvaður karlmaður var staðinn að verki við að brjóta glerflösku á almanna færi í miðbæ Ísafjarðar. Hann var ölvaður og æstur. Maðurinn má búast við sektum skv. lögreglusamþykkt Ísafjarðarbæjar vegna athæfisins.
Alls voru 38 ökumenn kærðir í liðinni viku fyrir að aka yfir leyfilegum hámarkshraða í umdæminu. Felstir þessara ökumanna voru mældir í Strandasýslu. Sá sem hraðast ók var mældur á 128 km hraða, þar sem leyfilegur hámarkshraði er 90 km. Tveir af þessum ökumönnum reyndust vera með útrunnin ökuréttindi og fá aukalega sekt fyrir það brot.
Þrír ökumenn voru kærðir fyrir að leggja ólöglega í Hnífsdal í liðinni viku. Ökumenn eru hvattir til að leggja eins og lög segja til um. Ólögleg lagning s.s. á gangstétt eða nærri gatnamótum veldur óþægindum og beinlínis er hættulegt gagnvart öðrum vegfarendum, hvort heldur gangandi eða akandi.
Knapi féll af hestbaki við smölun í Korpudal í Önundarfirði um miðjan dag þann 2. október sl. Maðurinn hlaut innvortis áverka sem þó voru ekki taldir lífshættulegir. Sjúkraflutningsmenn og björgunarsveitarmenn voru kallaðir til aðstoðar.
Rétt rúmlega 06:00 að morgni sunnudagsins 2. október barst tilkynning um umferðarslys við Hnífsdalsveg. Bifreið, sem ekið var þar um, hafnaði á ljósastaur og lagði hann niður. Í framhaldinu valt bifreiðin ofan vegarins. Ökumaður var einsamall í bifreiðinni. Hann hlaut ekki alvarlega áverka enda spenntur í öryggisbelti. Ekki er útilokað að ástæða þessa óhapps sé þreyta og sifja. Ástæða er til að minna ökumenn á að huga vel að þessum þætti, að vera vel í stakk búinn til aksturs.
Þá vill lögreglan á Vestfjörðum minna á mikilvægi þess að gangandi vegfarendur noti endurskinsmerki á yfirhöfum sínum þannig að ökumenn eigi auðveldara með að sjá viðkomandi. Einnig vill lögreglan minna ökumenn á að yfirfara ljósabúnað bifreiða sinna.