16 Apríl 2007 12:00
Tuttugu og einn ökumaður var tekinn fyrir ölvunarakstur á höfuðborgarsvæðinu um helgina. Tíu voru stöðvaðir á laugardag og jafnmargir á sunnudag og einn í nótt. Fimmtán voru teknir í Reykjavík, þrír í Hafnarfirði og einn í Kópavogi, Garðabæ og á Seltjarnarnesi.
Þetta voru nítján karlmenn og tvær konur, 18 og 29 ára. Tæplega helmingur karlanna er á þrítugsaldri en í fórum tveggja þeirra fundust jafnframt ætluð fíkniefni. Einn farþegi var sömuleiðis handtekinn við þetta eftirlit en sá var í bíl sem hafði ekki bara að geyma ölvaðan ökumann því í ökutækinu reyndist líka vera að finna þýfi. Til viðbótar stöðvuðu lögreglumenn tíu aðra ökumenn sem höfðu þegar verið sviptir ökuleyfi en einn þeirra var nú sekur um þetta brot öðru sinni. Fyrir vikið á hinn sami yfir höfði sér 100 þúsund króna sekt.
Fimmtíu og þrjú umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um helgina. Þá voru tuttugu og þrír ökumenn teknir fyrir hraðakstur. Í þeim hópi var tvítugur piltur en bíll hans mældist á 137 km hraða á Kringlumýrarbraut. Pilturinn má nú búast við 75 þúsund króna sekt og sviptingu ökuleyfis í einn mánuð en kauði hefur alloft áður verið tekinn fyrir umferðarlagabrot.