19 Október 2006 12:00
Tuttugu umferðaróhöpp urðu í umdæmi lögreglunnar í Reykjavík á síðasta sólarhring. Í þremur þeirra varð slys á fólki en í gærmorgun var tvisvar ekið á vegfarendur á gangbraut á Miklubraut. Þá var ökumaður fluttur á slysadeild um miðjan dag eftir að bíll hans hafnaði á ljósastaur í Elliðaárdalnum. Og í nótt lenti bíll utan vegar á Kjalarnesi. Tveir voru í bílnum en ekki er vitað um meiðsli þeirra.
Átján ökumenn voru teknir fyrir hraðakstur og einn þeirra má búast við sviptingu ökuleyfis. Sá var tekinn á rúmlega tvöföldum leyfilegum hámarkshraða í íbúðargötu í miðborginni. Þá stöðvaði lögreglan för sjö ökumanna sem notuðu ekki bílbelti og einn var tekinn fyrir að tala í síma án þess að nota handfrjálsan búnað.
Lögreglan í Reykjavík leggur mjög mikla áherslu á að tvö síðasttöldu atriðin, bílbelti og handfrjáls búnaður, séu í lagi og að þessi búnaður sé notaður eins og til er ætlast. Þeir sem virða það að vettugi mega búast við því að verða stöðvaðir í umferðinni. Þess má jafnframt geta að önnur lögreglulið á Suðvesturlandi gera slíkt hið sama og fram undan er sérstakt átak í þessum efnum.