13 Júlí 2015 22:36
Valnefnd Lögregluskóla ríkisins hefur valið 16 umsækjendur til að hefja nám við grunnnámsdeild Lögregluskóla ríkisins þann 1. september. Í hópi nýnemanna eru 11 karlar (68,75%) og 5 konur (31,25%).
Umsóknarfrestur til að sækja um skólavist rann út þann 22. júní og inntökuprófum lauk þann 30. júní. Alls bárust 160 umsóknir, tveir umsækjendur uppfylltu ekki almenn inntökuskilyrði og því voru 158 umsækjendur boðaðir í inntökupróf, 97 karlar og 61 kona.
Níu umsækjendur drógu umsókn sína til baka og fjórir mættu ekki í inntökupróf. Það voru því 145 umsækjendur sem mættu í inntökupróf í þreki, íslensku, almennri þekkingu og ensku. Auk þess gengust umsækjendurnir undir sálfræðimat þar sem lagt er mat á persónuleika þeirra og álagsþol.
Niðurstaðan var sú að 77 umsækjendur uppfylltu almenn inntökuskilyrði og stóðust inntökupróf, 53 karlar (68,8%) og 24 konur (31,2%). Af þeim voru 32 boðaðir til viðtals hjá valnefndinni sem valdi þá hæfustu 16 úr þeim hópi.
Við val nefndarinnar á þeim sem boðaðir voru til viðtals var, auk árangurs og framkomu á inntökuprófum, einnig litið til menntunar viðkomandi umfram þá lágmarksmenntun sem er áskilin, upplýsinga úr sakaskrá og málaskrá lögreglu, hvort viðkomandi hafi reynslu af afleysingastörfum í lögreglu eða skyldum störfum og almennrar reynslu úr atvinnulífinu.
Ríkislögreglustjóri ákveður fjölda nemenda sem hefja skulu nám ár hvert á grundvelli áætlunar um endurnýjun í lögreglu ríkisins en þess ber að geta að ákvörðun um fjölda nýnema hversu sinni ræðst einnig af fjárveitingum til Lögregluskóla ríkisins og fjárhagsstöðu hans á hverjum tíma. Þrátt fyrir að bóknámið við skólann sé ólaunað, greiðir skólinn nemendum mánaðarlaun í starfsnámi þeirra og auk þess þarf skólinn að standa straum af kostnaði vegna nauðsynlegs tækjabúnaðar og einkennisfatnaðar nemendanna.
Um leið og þeim 16 sem voru valdir er óskað til hamingju er öllum umsækjendum þakkað fyrir að sýna námi við Lögregluskóla ríkisins áhuga. Rétt er að taka sérstaklega fram að því fer fjarri að þeir sem ekki voru valdir sem nýnemar séu þar með óhæfir. Valnefndin var ekki öfundsverð af hlutverki sínu enda voru margir mjög hæfir umsækjendur um skólavist að þessu sinni.
Öllum umsækjendum, sem uppfylltu öll inntökuskilyrði og stóðust inntökupróf, hefur verið sent bréf þar sem niðurstaða valnefndarinnar er kynnt.