19 Desember 2008 12:00
Þann 19. desember 2008 lauk fyrstu önn grunnnáms Lögregluskóla ríkisins en hún hófst þann 9. september s.l. 16 nemendur hófu þá nám, einn þeirra hætti námi á önninni af persónulegum ástæðum og það voru því 15 nemendur sem þreyttu áfangapróf að þessu sinni. Einn þeirra þarf að þreyta endurtökupróf í einni námsgrein og engin ástæða er til að ætla annað en hann ljúki prófinu með fullnægjandi árangri.
Bestum námsárangri á prófum annarinnar, 8,92 í meðaleinkunn, náði Þorvaldur Ólafsson, þar á eftir voru Hulda Sigríður Guðmundsdóttir með meðaleinkunnina 8,85 og Aðalsteinn Guðmundsson með meðaleinkunnina 8,65. Skólastjóri Lögregluskólans, Arnar Guðmundsson, veitti þessum nemendum sérstaka viðurkenningu fyrir góðan námsárangur. Meðaleinkunn alls hópsins var 8,15.
Þann 1. janúar 2009 hefst fjögurra mánaða starfsþjálfun nemendanna, sex þeirra fara í starfsþjálfun hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, tveir fara til lögreglunnar á Akureyri, einn til lögreglunnar á Eskifirði, einn til lögreglunnar á Hvolsvelli, þrír til lögreglunnar á Selfossi og tveir til lögreglunnar á Suðurnesjum.
Markmiðið með starfsþjálfuninni er að nemendurnir fái innsýn í lögreglustarfið og öðlist skilning á því; að þeir þjálfist og þroskist þannig að þeir geti leyst viðfangsefni sjálfstætt; að þeir fái skilning á samhenginu milli fræðilegu kennslunnar í grunnnámi skólans og lögreglustarfsins í raun og að þeir séu reiðubúnir til náms á þriðju önn skólans sem hefst í byrjun september 2009 og lýkur í desember sama ár.
Að þessu sinni er starfsþjálfunin með breyttu sniði frá því sem verið hefur því að á starfsþjálfunartímabilinu greiðir Lögregluskóli ríkisins mánaðarlaun nemendanna og tilteknum lögreglustjórum er falið að annast starfsþjálfunina. Gert er ráð fyrir að nemendur verði stærstan hluta tímabilsins á almennum vöktum en fái einnig kynningu á öðrum deildum viðkomandi embættis í samræmi við námsskrá annarinnar. Af hálfu skólans er lögð á það áhersla að um starfsþjálfun sé að ræða, ekki afleysingar í lögreglunni.
Nemendahópurinn uppstilltur, ljósmynd Árni Sigmundsson