10 Febrúar 2020 17:30
112-dagurinn verður haldinn um allt land á morgun, þriðjudaginn 11. febrúar, og er sjónum að þessu sinni beint að öryggi fólks í umferðinni. Til að minna á mikilvægi þess að fara varlega í umferðinni verður útkallstækjum viðbragðsaðila lagt á áberandi stöðum við helstu umferðaræðar á höfuðborgarsvæðinu á mestu annatímum í umferðinni. Útkallstæki lögreglu, slökkviliðs, björgunarsveita Slysavarnafélagsins Landsbjargar, Rauða krossins og Landhelgisgæslunnar verða sýnileg við helstu umferðaræðar kl. 8.00-9.00 og aftur kl. 16.00-17.30 á morgun. Samstarfsaðilar 112-dagsins utan höfuðborgarsvæðisins grípa víða til sambærilegra aðgerða.
Samstarfsaðilar 112-dagsins vara fólk sérstaklega við að nota síma og önnur snjalltæki undir stýri, enda sýna rannsóknir að þeir sem hafa hugann við slík tæki í akstri eru margfalt líklegri en aðrir til að valda umferðarslysum. Þeir hvetja jafnframt þá sem ganga og hjóla til að nota endurskin og vera þannig vel sýnilegir þeim sem fara um á bílum. Sjálfboðaliðar Slysavarnafélagsins Landsbjargar verða á fjölförnum stöðum víða um land á morgun og ætla að dreifa 17.000 endurskinsmerkjum Neyðarlínunnar, Landsbjargar og Samgöngustofu. Fólk er eindregið hvatt til að þiggja endurskinsmerkin og nota þau.
Í tilefni dagsins efna Neyðarlínan og samstarfsaðilar 112-dagsins til móttöku í Björgunarmiðstöðinni Skógarhlíð kl. 16 á morgun, en þar verða afhent verðlaun í Eldvarnagetrauninni 2019 og Skyndihjálparmaður Rauða krossins útnefndur. Lögreglukórinn mun taka lagið og ávarp flytur Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands.
112-dagurinn er samstarfsverkefni stofnana og félagasamtaka sem annast margvíslega neyðarþjónustu, almannavarnir og barnavernd í landinu. Þau eru: 112, Barnaverndarstofa, Embætti landlæknis, Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins, Landhelgisgæslan, Landspítalinn, Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Rauði krossinn, Ríkislögreglustjórinn, Slysavarnafélagið Landsbjörg, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins, Vegagerðin, Samgöngustofa og samstarfsaðilar um allt land.