24 Maí 2016 11:00
Í síðustu viku slösuðust níu vegfarendur í átta umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 15. – 21. maí.
Sunnudaginn 15. maí kl. 6.14 var bifreið ekið á ljósastaur á Kaldárselsvegi við Elliðavatnsveg. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 16. maí. Kl. 16.13 varð sjö ára stúlka fyrir bifreið í Asparholti. Hún hafði hlaupið út á götuna er bifreiðinni var ekið eftir henni. Stúlkan var flutt á slysadeild. Og kl. 16.15 hjólaði sex ára drengur fram af 110 cm háum vegg, sem er jafnhár gangstíg milli Lóuáss og Spóaáss. Drengurinn var fluttur á slysadeild.
Þriðjudaginn 17. maí kl. 22.38 varð aftanákeyrsla á Reykjanesbraut til norðurs skammt sunnan Bústaðavegar. Áður hafði aftari bifreiðinni verið ekið utan í vegrið við brautina. Ökumaður og farþegi aftari bifreiðarinnar hlupu á brott eftir áreksturinn. Ökumaður og farþegi í fremri bifreiðinni voru fluttir á slysadeild.
Miðvikudaginn 18. maí kl. 16.41 varð sjö ára stúlka, sem hjólaði suður eftir gangbraut yfir Vesturbrú, fyrir bifreið, sem ekið var hægt austur götuna. Stúlkan var flutt á slysadeild.
Fimmtudaginn 19. maí kl. 23.18 var bifhjóli ekið á vegrið eftir að hafa verið ekið vestur Nýbýlaveg á móts við Álfabrekku. Ökumaðurinn, sem er grunaður um að hafa verið undir áhrifum fíkniefna, var fluttur á slysadeild.
Föstudaginn 20. maí kl. 20.36 varð árekstur með bifreið, sem ekið var suður Hvannavelli og inn á Hvannatorg með fyrirhugaða akstursstefnu inn á Suðurhellu, og bifreið, sem ekið var um Ásbraut inn á torgið. Farþegi í fyrrnefndu bifreiðinni meiddist, en ætlaði að leita sér sjálfur aðstoðar á slysadeild.
Laugardaginn 21. maí kl. 16.16 féll níræð kona af rafmagnsreiðhjóli. Konan var farþegi í sæti framan á hjólinu þegar því var ekið of hratt niður brekku á göngustíg frá brú yfir Miklubraut á móts við dvalarheimilið Mörk. Konan var flutt á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um hjólreiða- og bifhjólafólk.