13 Október 2009 12:00
Allmörg þjófnaðarmál komu á borð lögreglunnar um helgina en þjófar voru einkum á ferð í verslunarmiðstöðvum í Reykjavík og Kópavogi. Hinir óprúttnu aðilar eru á öllum aldri, jafnt karlar sem konur. Yngsti þjófurinn sem var gripinn um helgina er 12 ára strákur en sá elsti kona um sextugt. Þjófarnir sækja mikið í snyrtivörur en líka matvöru, ekki síst sælgæti en þá eiga gjarnan í hlut fingralangir unglingar.
Af öðrum þjófnaðarmálum má nefna að þvotti var stolið úr þvottahúsi fjölbýlishúss í borginni. Grunur beindist fljótt að ákveðnum aðila og viðurkenndi sá verknaðinn. Kom einnig á daginn að viðkomandi hafði áður stolið úr sama þvottahúsi. Þá voru þrír dekkjaþjófar gripnir í Reykjavík eldsnemma morguns en þeir voru sakleysið uppmálið þegar lögreglan kom á vettvang. Í bíl þeirra fannst hinsvegar sitthvað athugunarvert, þ.e. fíkniefni og þýfi. Í framhaldinu var farið í húsleit á heimili eins þeirra og þar fundust fleiri munir sem þremenningarnir áttu erfitt með að gera grein fyrir.