Með lögum skal land byggja

Þetta orðatiltæki var vel þekkt til forna á meðal norrænna manna og var hluti þeirrar menningar sem  norrænir menn fluttu til Íslands. Það var fyrst ritað í Njálssögu; „með lögum skal land vort byggja en með ólögum eyða“.

Engu eiginlegu ríkisvaldi var þó til að dreifa til að framfylgja eftirliti og almanna öryggi. Refsingar voru útlegð (sektir), fjörbaugsgarður eða skóggangur og féll það í hlut nákominna þeirra sem misgert var við að framfylgja refsingunni.

Þetta fyrirkomulag dugði vel í fyrstu en eftir að hér hafði geisað mikill ófriður á Sturlungaöld með mannvígum og eyðileggingu var ljóst að framkvæmdarvald vantaði til að framfylgja lögum og tryggja frið í landinu. Með tilkomu Gamla sáttmála árið 1262 var konungi Noregs gert skylt að halda uppi lögum og reglum í landinu og til varð nýtt stjórnkerfi með umboðsmönnum konungs, sýslumenn, sem sáu um að framfylgja lögum í landinu.

Vaktarar með morgunstjörnur

Fyrstu forverar lögreglumanna á Íslandi teljast þó vaktararnir frá tímum Skúla fógeta Magnússonar. Þetta var á tímum Innréttinganna og fyrsta tukthússins á Íslandi. Þá myndaðist fyrsti stóri byggðarkjarninn á Íslandi, í Reykjavík. Vaktararnir unnu að gömlum evrópskum sið, gerðu viðvart ef þeir sáu eld og létu sig varða allt sem óeðlilegt gat talist í þeirra tíma skilningi. Þeim voru sett fyrstu erindisbréfin 1778 og gengu með langan staf með göddóttum hnúð sem kallaðist morgunstjarna. Vaktararnir lögðust af um stuttan tíma 1791 en 10. nóvember sama ár réði Reykjavíkurborg til sín vaktara sem jafnframt var fyrsti starfsmaður kaupstaðarins.

Árið 1803 varð Reykjavík fullburða kaupstaður og bæjarfógetinn, Rasmus Frydensberg, fékk sér til aðstoðar tvo danska lögregluþjóna. Fyrsti íslenski lögregluþjónninn var Jón Benjamínsson en hann var ráðinn til starfa árið 1814. Síðasti danski lögregluþjóninn starfaði hér fram til ársins 1859. Eftir það var lögreglan alíslensk.

Árið 1809 voru hreppstjórar gerðir að starfsmönnum ríkisins utan Reykjavíkur og þeim var falið aukið vald, meðal annars til að sinna löggæslu. Á þessum tíma myndaðist þéttbýli á fleiri stöðum á landinu með aukinni útgerð og skipakomum. Á Akureyri var ráðinn sérstakur löggæslumaður í kringum 1820 sem skyldi hirða upp ölvaða menn og hindra skotveiði á Pollinum á helgum dögum. Árið 1894 var ráðinn lögregluþjónn á Ísafirði og árið 1908 voru tveir lögregluþjónar ráðnir við embætti bæjarfógetans í Hafnarfirði. Við ráðningu þeirra var sérstaklega tekið fram að þeir þyrftu sjálfir að leggja sér til einkennisfatnað og bæjarstjórn neitaði þeim um styrk. Sögðu þeir því upp störfum sínum og voru að lokum aðrir ráðnir í þeirra stað.

Samkvæmt lögreglusamþykkt fyrir Reykjavíkurkaupstað frá 1891 mátti refsa börnum með mest 15 vandarhöggum og var það hlutverk lögreglu að framfylgja ákvæðum samþykktarinnar. Mun því hafa fylgt að börnum var hótað með því að lögreglan myndi flengja þau og var sú ógn lífseig þó að ákvæðið hafi verið numið úr gildi 1919.

Samhliða lögregluþjónum störfuðu næturverðir í Reykjavík auk þess sem kaupmenn réðu sjálfir til sín fleiri næturverði. Það var ekki fyrr en 1923 að lögreglustöðin í Reykjavík var opin allan sólarhringinn.

Frá sveitarfélögum til ríkisins

Við stofnun embættis tollstjóra 1929 færðust tollamál frá embætti lögreglustjórans í Reykjavík og við lögreglunni tók Hermann Jónasson. Undir hans stjórn var grunnurinn lagður að því fyrirkomulagi sem lögreglan býr við í dag því Hermann varð síðar forsætis- og dómsmálaráðherra.

Á kreppuárum urðu tíð átök á milli lögreglu og verkalýðshreyfinga og árið 1933 voru sett lög um ríkislögreglu sem hétu „Lög um lögreglumenn“. Fram til þess tíma hafði ríkið ekki tekið annan þátt í rekstri lögreglu en að skipa og launa lögreglustjóra. Fljótlega kom sá galli í ljós að erfitt var að hreyfa lögreglulið á milli umdæma. Úr því var bætt smám saman en árið 1972 var lögum breytt þannig að ríkið tók alfarið yfir löggæslu og lögreglumenn urðu ríkisstarfsmenn í stað þess að vinna fyrir sveitarfélögin.

Rannsóknarlögregla ríkisins tók til starfa 1977 og færðust rannsóknir sakamála undan forræði Sakadóms Reykjavíkur til sjálfstæðrar stofnunar. Rannsóknarlögregla ríkisins fór með rannsóknir veigameiri mála á landinu öllu. Árið 1982 var sérsveit stofnuð en hún er vopnuð sveit lögreglu og 1988 varð Lögregluskóli ríkisins að sjálfstæðri stofnun eftir að hafa verið hluti af lögreglunni í Reykjavík.

Árið 1992 urðu stórfelldar breytingar á skipan dómsvalds í landinu á sviði réttarfarslöggjafar og ákæruréttarfars og í framhaldinu, árið 1997, tóku núverandi lögreglulög gildi. Rannsóknarlögregla ríkisins var lögð niður en í stað hennar voru verkefni færð til lögreglustjóra í umdæmum og ríkislögreglustjóra. Um leið voru lögfestar skýrari reglur um framkvæmd lögreglustarfa og réttindi og skyldur lögreglumanna sem í dag eru embættismenn.

Í fyrstu grein lögreglulaga nr. 90/1996 er hlutverk lögreglu skilgreint.

1. gr. Hlutverk.

  • Ríkið heldur uppi starfsemi lögreglu.
  • Hlutverk lögreglu er:

a. að gæta almannaöryggis og halda uppi lögum og reglu, leitast við að tryggja réttaröryggi borgaranna og vernda eignarrétt, opinbera hagsmuni og hvers konar lögmæta starfsemi,

b. að stemma stigu við afbrotum og koma í veg fyrir athafnir sem raska öryggi borgaranna og ríkisins,

c. að vinna að uppljóstran brota, stöðva ólögmæta háttsemi og fylgja málum eftir í samræmi við það sem mælt er fyrir um í lögum um meðferð [sakamála]1) eða öðrum lögum,

d. að greiða götu borgaranna eftir því sem við á og aðstoða þá þegar hætta steðjar að,

e. að veita yfirvöldum vernd eða aðstoð við framkvæmd starfa sinna samkvæmt fyrirmælum laga eða venju eftir því sem þörf er á,

f. að starfa í samvinnu við önnur stjórnvöld og stofnanir sem hafa með höndum verkefni sem tengjast starfssviði lögreglu,

g. að sinna öðrum verkefnum sem henni eru falin í lögum eða leiðir af venju.

Síðustu ár hafa aðrar breytingar átt sér stað. Má þar helst nefna ný lög um meðferð sakamála nr. 88/2008 og nú síðast breytingar á lögreglulögunum sem aðskilja störf sýslumanna og lögreglustjóra og fela í sér stækkun og fækkun umdæma. Í dag eru níu umdæmi lögreglu i landinu auk ríkislögreglustjóra og forstöðumanns mennta- og starfsþróunarseturs lögreglunnar.

Hér fyrir neðan má sjá útgefin rit um sögu lögreglunnar

Ágrip af sögu lögreglunnar vegna 200 ára afmælis lögreglunnar (útg. 2003)

Forsíða og inngangur

Löggæsla fyrri alda

Lögreglan frá tímum vaktaranna

Lögregla nútímans

Tilvísana- og heimildaskrá

 

[dpSocialTimeline id=3]