Hlutverk lögreglunnar í umferðaröryggi er margþætt og felur í sér að stuðla að auknu öryggi allra vegfarenda með margvíslegum aðgerðum og eftirliti.

Eftirlit með framfylgd við umferðarlög.  Lögreglan sinnir reglulegu eftirliti með umferð og gætir að því að ökumenn og vegfarendur fylgi umferðarlögum og reglum sem varða hraðatakmarkanir við akstur, notkun öryggisbúnaðar og akstri undir áhrifum áfengis eða fíkniefna.

Lögreglan hefur heimild til að beita sektum, veita áminningar eða svipta ökumenn ökuréttindum þegar alvarleg brot eiga sér stað.

Forvarnir og fræðsla. Samgöngustofa ber ábyrgð á fræðslu vegna umferðaröryggis. Lögreglan á í samvinnu við Samgöngustofu um að miðla fræðsluefni frá stofnuninni.

Lögreglan tekur þátt í fræðslu og forvarnarstarfi, bæði innan skóla og samfélagsins, þar sem hún vekur athygli á hættum í umferðinni og kennir rétta hegðun til að auka umferðaröryggi.  Kynntu þér samfélagslöggæslu.

Samstarf og samræming. Lögreglan vinnur í samstarfi við aðra aðila, þ.m.t. Samgöngustofu, Vegagerðina, björgunarsveitir, heilbrigðisþjónustu og sveitarfélög, til að samræma aðgerðir sem auka umferðaröryggi og draga úr slysatíðni.

 

Slysarannsóknir. Þegar slys eiga sér stað sinnir lögreglan rannsókn á ástæðum þeirra og vinnur að því að koma í veg fyrir að sambærileg atvik endurtaki sig. Upplýsingar úr slysum eru einnig nýttar til að bæta löggjöf og umferðaröryggi.

Aukinn sýnileiki og viðbragð. Sýnileiki lögreglu á götum og vegum stuðlar að auknu öryggi þar sem fólk er meðvitaðra um hegðun sína þegar það sér lögregluna nálægt. Einnig geta lögreglumenn brugðist hratt við slysum eða hættulegum aðstæðum og veitt aðstoð sem minnkar áhrif óhappa.

Helstu markmið löggæsluáætlunar vegna umferðaröryggis eru m.a. að auka frumkvæðislöggæslu á sviði umferðareftirlits og fækka alvarlegum umferðarslysum um 5% á ári.