Lögreglan í samvinnu við Neyðarlínuna og fjölda samstarfsaðila hafa þróað ítarlegt flæðirit með skýrum leiðbeiningum um fyrsta viðbragð vegna vopnalagabrota og kynferðisofbeldis. Þau eru ætluð starfsfólki skóla, félagsmiðstöðva, íþrótta- og æskulýðsstarfsemi. Þeim verður dreift til skóla, fylgt eftir af samfélagslögreglumönnum um allt land og gerð aðgengileg á 112.is og vefsíðu lögreglunnar.

Markmið flæðiritanna er:

  • Skýrt verklag við neyðartilvikum vegna vopnaburðar og kynferðisofbeldis
  • Fækka ofbeldisbrotum
  • Stuðningur við þolendur ofbeldis
  • Stuðningur við gerendur til að stöðva ofbeldishegðun
  • Aukin þekking á hvernig megi fyrirbyggja slík atvik og draga úr áhættu.

Snið

Flæðiritin eru prentuð í veggspjaldastærð (A3) en einnig er hægt að fá þau í PDF eða JPG myndsniði. Hægt er að prenta PDF út í A4 stærð.

Notkun

Flæðiritin ættu að vera uppi þar sem starfsfólk sér þau og veit af þeim eins og kennaraskrifstofu. Hægt er að deila þeim með foreldrum eða nemendum (í PDF eða A4 prent) til að útskýra verkferli ef mál koma upp.

Gott er að fylla út reitinn fyrir símanúmer barnaverndarþjónustu í því umdæmi sem vinnustaðurinn er.

Flæðiritin eru skipt í þrjá hluta:

1. Yfirstandandi eða nýlegur atburður

Þegar það er mikilvægt að taka ákvarðanir og bregðast við strax. Það getur verið vegna yfirstandi hættu eða til að koma máli strax á réttan farveg hjá lögreglu.

2. Eldri atburður

Þegar tími er til að fara betur yfir málið áður en brugðist er við. Eins og þegar hætta er afstaðin eða þegar starfsfólk er látið vita af atburði sem hefur gerst.

3. Frekari upplýsingar

Tenglar (QR kóðar) á frekari upplýsingar á vef 112.

Frekari upplýsingar

Hægt er að hlaða niður flæðiritunum í PDF sniði, jafnt og fá frekari upplýsingar og úrræði á vefsíðum flæðiritanna.

Kynferðisbrot       www.112.is/fr-kynferdisbrot
Vopnaburður        www.112.is/fr-vopnaburdur

 ——

Tilkynningum til lögreglu og barnaverndar þar sem grunur er um að barn beiti ofbeldi hefur fjölgað. Stjórnvöld hafa brugðist við með 25 aðgerðum, þar á meðal er aukið viðbragð og sýnilegri löggæsla, fjölgun samfélagslögreglumanna og öflugri forvarnir og fræðsla.