Yfir 400 mál á dag
Árið 2024 voru skráð rúmlega 148 þúsund mál hjá lögreglu sem gerir um 405 mál á dag og 17 mál á hverri klukkustund. Verkefni lögreglu geta verið margvísleg og snúa m.a. að ýmiskonar aðstoð við almenning, eftirliti, s.s. við skóla, gæslu á landamærum, umferðarlöggæslu og fræðslu svo fátt eitt sé nefnt. Um 31% landsmanna leita til lögreglu með þjónustu eða aðstoð árlega. Flestir leita til lögreglu í gegnum Neyðarlínuna (112), hringja í lögreglu eða fara á lögreglustöð. (Könnun á reynslu landsmanna af afbrotum og viðhorf til lögreglu 2024)
Brotum gegn barnaverndarlögum fækkar
Hegningarlagabrot voru rúmlega 12 þúsund árið 2024 eða 5% færri (↓) en meðaltal áranna 2021-2023. Umferðarlagabrot voru einnig færri (↓) árið 2024 en að meðaltali árin 2021-2023 eða 48 þúsund sem er um fimmtungs fækkun.
Fíkniefnabrot voru um 1.700 talsins (↓6%), en innan fíkniefnabrota var sala og dreifing fíkniefna um 270 brot (↑33%) þar af voru brot er varða sölu og dreifingu fíkniefna um 270 (↑33%) en brot er varða framleiðsla fíkniefna voru um 50 talsins (↓30%). Brot er varða vörslu og meðferð voru 1.046 árið 2024 (↓11%). Fjöldi brota gegn barnaverndarlögum voru 297, og því 12% færri (↓) en meðaltal áranna 2021-2023. Tilkynningar til barnaverndar voru þó óvenju margar árin 2021-2024 miðað við áratuginn þar á undan, eða að meðaltali 329, en voru að meðaltali 150 á árunum 2011-2020. Vopnalagabrotum fjölgaði um 10% (↑) miðað við meðaltal áranna á undan og voru 506 árið 2024. Áfengislagabrotum fækkaði hins vegar um 25% (↓), voru tæp 240.
Lögregla og tollgæsla leggja hald á talsvert magn fíkniefna á hverju ári. Árið 2024 var engin undantekning þar á en lagt var hald á rúmlega 283 kg. af maríjúana sem er mesta magn sem lögregla og tollur hafa haldlagt á einu ári. Einnig var lagt hald á óvenju mikið magn af maríjúana árið 2023 eða 210 kg. Þá var lagt hald á tæplega 7 kg. af metamfetamín kristöllum árið 2024 sem var einnig óvenju mikið magn. Lögregla og tollur lögðu hald á tæplega 44 kg af kókaíni árið 2024 (var 56 kg árið 2023) og tæplega 23 þúsund stykki af MDMA (tæp 2 þúsund árið 2023).
Nánar um haldlagt magn fíkniefna hér.
Heimilisofbeldismál standa í stað
Þau 12 þúsund hegningarlagabrot sem skráð voru árið 2024 áttu sér flest stað á laugardögum (um 1.950 allt árið 2024) en þegar litið er til bæði vikudags og tíma brots áttu flest hegningarlagabrot sér stað aðfaranótt sunnudags (tafla 1).
Þegar litið er til fjölda hegningarlagabrota eftir embættum þá kemur í ljós að flest þeirra eða 77% áttu sér stað á höfuðborgarsvæðinu og næst flest, eða átta prósent á Suðurnesjum. Í heildina voru hegningarlagabrot rúmlega 9.400 á höfuðborgarsvæðinu sem er svipaður fjöldi og árið á undan. Þetta þýðir að skráð voru um 26 hegningarlagabrot á dag á höfuðborgarsvæðinu. Um 40% skráðra hegningarlagabrota á landinu öllu voru með skráðan vettvang á varðsvæði lögreglustöðvar 1, en lögreglustöð 1 sinnir stórum hluta Reykjavíkurborgar (Vesturbær, Miðborg, Hlíðar, Laugardalur og Háaleiti) og Seltjarnarnesi. Af hverfum í Reykjavík áttu flest brot sér stað í Miðborg Reykjavíkur, eða um 17% hegningarlagabrota sem skráð voru á höfuðborgarsvæðinu, sem er svipað hlutfall og árin áður.
Þegar litið er til þróunar á fjölda innan hvers umdæmis má sjá að brotin voru færri eða jafnmörg miðað við meðaltal áranna 2021-2023 í flestum embættum. Aðeins í tveimur embættum voru þau fleiri, þ.e. á Vesturlandi (↑4%) og á Suðurnesjum (↑14%).
Auðgunarbrot voru 3% færri (↓) árið 2024 miðað við meðaltal áranna 2021-2023. Þegar auðgunarbrot eru skoðuð nánar má sjá að þjófnaðir voru flestir, eða um 3.600 á árinu. Almenn þjófnaðarbrot voru færri (↓20%) en hnuplmál hins vegar fleiri (↑53%). Innbrot voru um 1.100 talsins og aðeins fleiri (↑6%) árið 2024 en meðaltal áranna á undan. Flest innbrot eru framin í fyrirtæki eða stofnanir (41%). Þá voru fjársvik færri (↓28%) árið 2024 en árin á undan en rán fleiri (↑40%), eða 108 talsins sem jafngildir að meðaltali níu ránum á mánuði.
Kynferðisbrot voru 365 (↓29%) en vert er að taka fram að miðað er við dagsetningu brots í úttektinni. Gera má því ráð fyrir að fjöldi kynferðisbrota sem áttu sér stað árið 2024 verði fleiri, þegar liðið er lengra inn á árið 2025, þar sem hluti kynferðisbrota er almennt tilkynntur lögreglu nokkrum vikum eða mánuðum eftir atvik.
Árið 2024 var heildar fjöldi ofbeldisbrota lægri en meðaltal síðustu þriggja ára (↓3%) en brotin hafa þó verið óvenju mörg árin 2021-2024 miðað við áratuginn þar á undan (rétt yfir 2.000 að meðaltali 2021-2024 en um 1.500 að meðaltali áratug þar á undan).
Meiriháttar og stórfelld ofbeldisbrot voru rétt um 300 talsins (↑19%) árið 2024 og því um fimmtungi fleiri en að meðaltali árin 2021-2023. Ef litið er eingöngu til stórfelldra ofbeldisbrota (brot gegn 218.2 gr. alm.hgl. 19/1940) voru þau 215 talsins í samanburði við 144 að meðaltali 2021-2023 (↑49%) en meiriháttar ofbeldisbrot (brot gegn 218.1 gr. alm.hgl. 19/1940) voru 139 (↓10%).
Árið 2024 voru mál þar sem grunur var um manndráp sjö, en alls létust átta einstaklingar í þessum málum. Sé miðað við fjölda látinna á íbúa þá hafa ekki verið skráð fleiri manndráp hér á landi ef litið er aftur til aldamóta. Hlutfallið var 2,1 á hverja 100 þúsund íbúa árið 2024 en var næst hæst um aldamót þegar hlutfallið var 1,8 látnir á hverja 100 þúsund íbúa.
Árið 2024 voru heimilisofbeldismál um 1.120 sem er sami fjöldi og að meðaltali árin 2021-2023. Flest ofbeldisbrot eru af hendi maka og var svipaður fjöldi mála skráður árið 2024 og meðal fjöldi var á árunum 2021-2023 (↑2%). Næst flest brot eru af hendi fyrrum maka en þeim fækkaði nokkuð árið 2024 (↓18%) en á sama tíma fjölgaði tilkynningum vegna ofbeldis af hendi barns í garð foreldris (↑18%) og ofbeldis foreldris í garð barns (↑12%).
Árið 2024 var Sérsveit kölluð út 478 sinnum vegna tilkynninga um vopn á vettvangi. Um svipaðan fjölda útkalla er að ræða og árið áður er þau voru 467 (↑2% árið 2024 miðað við árið á undan). Hins vegar ef miðað er við meðalfjölda tímabilið 2021-2023 fjölgaði útköllum um rúman fimmtung árið 2024. Oftast var um að ræða tilkynning um hníf eða eggvopn (í 64% útkallanna).
Umferðarlagabrot voru rúm 48.000 á árinu.Þar af voru um 75% brotanna vegna of hraðs aksturs (35.600 brot), þar af um 25 þúsund brot sem tekin voru á stafrænar hraðamyndavélar.
Þegar litið er til annarra umferðarlagabrot en hraðakstursbrota voru þau tæplega 13.000 á árinu (um 35 á dag). Flest féllu undir kafla í umferðarlögum „um ökumenn“. Um 2.500 brot vörðuðu brot þar sem ekið var án réttinda, þá voru um 1.500 vegna banns við akstri undir áhrifum fíkniefna og um 1.400 vegna banns við akstri undir áhrifum áfengis. Þá voru brot vegna notkunar farsíma án handfrjáls búnaðar um 1.000 talsins á árinu.
Ýmis verkefni lögreglu
Um 380 andlátsmál sem lögregla kemur að – mest vegna veikinda
Skráð verkefni vegna aðstoðar við borgarana voru tæplega 10.000 á árinu. Þá var tilkynnt um hávaða í um 2.000 málum, eftirlit með skólum skráð í um 1.800 málum og tilkynningar um grunsamlegar mannaferðir í um 1.100 málum. Sem dæmi um verkefni lögreglu þá sinnti hún 380 mannslátsmálum á árinu sem er svipaður fjöldi og að meðaltali árin 2021-2023. Lang flest andlátin voru vegna veikinda (233 mál), en einnig vegna sjálfsvíga, slysa, ofneyslu eða gruns um brotlegt athæfi (alls 150 mál).
Mál þar sem um er að ræða frávísanir eða brottvísanir voru um 1.000 á árinu 2024 (↑196%) og því talsvert fleiri en að meðaltali síðastliðin þrjú ár á undan þegar þau voru að meðaltali 353, enda óvenjum margir sem sóttu um vernd árin 2022 og 2023.
Um gögnin:
Gögnin voru tekin út 02.01.2025 úr málaskrá lögreglu
Miðað er við dagsetningu brots. Gera má ráð fyrir að kynferðisbrot verði fleiri árið 2024 þegar gögnin verða tekin út síðar, þ.e. leiða má líkur að því að enn eigi eftir að tilkynna einhver slík brot, en ákveðinn hluti kynferðisbrota er ávallt tilkynntur einhverjum vikum eða jafnvel mánuðum eftir atvik. Helst eru það kynferðisbrot sem eru tilkynnt einhverju eftir atvik, en það sama á síður við önnur brot.
*Flokkun brota skýringar
Brot eru flokkuð gróflega í þrjá flokka í málaskrá lögreglu, þ.e. hegningarlagabrot, umferðarlagabrot og sérrefsilagabrot. Undir hegningarlagabrot falla brot eins og ofbeldisbrot, auðgunarbrot (rán, innbrot, þjófnaður o.s.frv.), kynferðisbrot, eignaspjöll o.fl. Umferðarlagabrot eru að langstærstum hluta hraðabrot, en einnig ölvunar akstur, fíkniefna akstur, notkun farsíma án handfrjáls búnaðar o.fl. Þá eru sérrefsilagabrot þriðji flokkurinn en þar fellur undir fíkniefnabrot, áfengislagabrot, brot gegn vopnalögum o.fl.