Ýmislegt

Er andlegt ofbeldi bannað samkvæmt lögum?

Þessu er erfitt að svara í stuttu máli svo nægjanlegt sé þar sem þetta eru flókin mál og einstök í eðli sínu.

Hvergi er í lögum talað um andlegt ofbeldi. Erfitt er að skilgreina andlegt ofbeldi, enda getur það verið allt frá því að vera andstyggilegheit yfir í að vera hreinar og beinar hótanir. Andstyggilegheit eru ekki lögbrot, en hótanir eru það. Þannig er andlegt ofbeldi ekki til í lögum, en það sem oft er kallað andlegt ofbeldi getur engu að síður verið lögbrot. Hvaða sannanir er hægt að nota í hverju og einu skipti er mjög mismunandi og fer algerlega eftir hverju máli.

Hvernig fæ ég nálgunarbann?

Samkvæmt lögunum er unnt að leggja nálgunarbann á þann sem ástæða er til að ætla að muni fremja afbrot eða raska á annan hátt friði annars manns. Í slíku banni felst að sá sem því sætir má ekki koma á tiltekinn stað eða svæði eða setja sig með öðru móti í samband við þann sem verndaður er af banninu. Ef fólk vill kanna hvort að grundvöllur sé fyrir slíku banni þarf viðkomandi að leita til lögreglu, sem metur málið og sendir síðan til dómstóla, sem úrskurða um kröfu lögreglu.

Ef þú vilt geturðu kynnt þér lögin sem fjalla um þetta úrræði. Þau má finna hérna.

Íbúi í húsinu mínu er að leigja út íbúð til ferðamanna. Er það hægt án samþykkis míns?

Farið hefur verið fram á samþykki meðeiganda þar sem hugsanlegt sé að starfsemin geti valdið einhverju ónæði. Miðað hafi verið við meirihluta sbr. 3. mgr. 27. gr. Fjöleignarhúsalaga, texta hér að neðan (3. Málsgrein; séu um að ræða…).

Í nýlegu áliti kærunefndar húsamála af sambærulegu tilefni var hins vegar komist að þeirri niðurstöðu að umgengni gesta sé sambærileg annarri umgengni í venjulegu fjölbýlishúsi, því þurfi að meta það hverju sinni hvort ákvæði 27. gr. fjöleignarhúsalaga eigi við. Taldi kærunefndin að það tilvik sem hún hafði til umfjöllunar (íbúð í stórri íbúðablokk) félli undir ákvæði 2. mgr. 27. gr. laganna og útheimti því ekki samþykki meðeigenda (2. málsgrein 27. greinar). Miðað við þetta mat kærunefndarinnar er því hæpið að leyfisveitingu verði synjað þó meðeigandi samþykki ekki, enda gengur meginregla fjöleignarhúsalaganna út frá því að eigandi hafi einn rétt til hagnýtingar og umráða yfir séreign sinni.

  1. gr. Breytingar á hagnýtingu séreignar frá því sem verið hefur eða ráð var fyrir gert í upphafi, sem hafa í för með sér verulega meira ónæði, röskun eða óþægindi fyrir aðra eigendur eða afnotahafa en áður var og gengur og gerist í sambærilegum húsum, eru háðar samþykki allra eigenda í hússins.

Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. Getur eigandi ekki sett sig á móti slíkri breytingu ef sýnt er að hún hefur ekki í för með sér neina röskun á lögmætum hagsmunum hans.

Sé um að ræða breytta hagnýtingu sem ekki er veruleg er nægilegt að samþykki einfalds meiri hluta miðað við fjölda og eignarhluta liggi fyrir.

Ef breytt hagnýting eignarhluta hefur sérstök og veruleg óþægindi eða truflun í för með sér fyrir suma eigendur, einn eða fleiri, en aðra ekki þá eiga þeir sem sýnt geta fram á það sjálfstæðan rétt til að krefjast þess að af breytingunni verði ekki.

Ég fékk símhringingu frá Microsoft um að tölvan mín væri sýkt af vírus. Hvernig bregst ég við þessu?

Við þekkjum þessi mál ansi vel en þarna er um svikatilraun að ræða sem snýr að því að reyna að fá þig til að setja inn hugbúnað sem í raun er eins konar vírus og verður til þess að óprúttnir aðilar ná yfirráðum á tölvu þinni og krefjast síðan lausnargjalds fyrir tölvuna.

Við þessu er fátt annað að gera en að vara aðra við, en það höfum við gert reglulega og sendum þá út aðvaranir vegna þessa til að vara sem flesta við. Hringingarnar koma frá löndum þar sem erfitt er að nálgast upplýsingar og þar sem tími og mannaforráð lögreglu eru takmörkuð viljum við síður eyða tíma í mál þar sem enginn skaði varð og engin hætta á ferðum.

Ef fólk er hins vegar í þeirri stöðu að hafa fallið fyrir slíkum hringingum er gríðarlega mikilvægt að taka tölvuna strax úr sambandi við netið og leita aðstoðar sérhæfðra aðila við að hreinsa tölvuna.

Ég sá auglýsingu fyrir pókerkvöld. Er slíkt bannað?

Ekki er bannað að spila póker hér á landi og ekki heldur að halda spilamót þar sem menn greiða þátttökugjald og því safnað upp í vinninga sem sá hreppir sem best stendur sig. Þetta fyrirkomulag viðgengst í fleiri spilum heldur en póker og því er það mat ríkissaksóknara að slíkt feli ekki í sér brot á gildandi reglum.

Það sem er hins vegar óheimilt er ef þriðji aðili hagnast af einhvers konar milligöngu um fjárhættuspil. Hvað á við í hverju tilviki getur verið snúið að átta sig á.

Er ólöglegt að taka sundur flugelda og breyta þeim?

Já, það getur verið það, enda segir í 5. gr. Reglugerð um skotelda:

„Óheimilt er að breyta á nokkurn hátt skoteldi þannig að hljóti aðra eiginleika en framleiðandi hans ætlaðist til.“

Þannig geta legið sektir eða fangelsisrefsing við slíkum brotum, en reglugerðin á stoð í vopnalögum. Þar liggja í raun rökin hvað lögin varðar, en almennt séð er það að taka í sundur flugelda afskaplega hættulegt og getur skapað þeim sem það gerir alvarlegt líkamstjón.

Hvar get ég sótt um sakarvottorð?

Lögreglan sér ekki um að halda úti sakaskrá, það gerir embætti ríkissaksóknara. Til að nálgast sakavottorð getur þú sótt um slíkt hjá sýslumanni í þinni heimabyggð. Frekari upplýsingar er hægt að fá á: http://www.syslumenn.is/utanrvk/leyfi_skirteini/sakavottord/.

Ég fékk sendan svikapóst, svokallað Nígeríubréf, viljið þið að ég sendi ykkur það?

Fólki er alltaf velkomið að senda okkur efni sem það telur geta aðstoðað okkur við vinnu okkar. Hvað svikapóstinn varðar þá þurfum við ekki að fá slík bréf enda gerum við í raun fátt við þau. Svikapóstur er sendur út í milljónatali og því væri gríðarleg vinna fyrir lögreglu að eltast við slíka tilraunir en oftast koma bréfin frá löndum þar sem erfitt er að nálgast upplýsingar og því fátt að elta. Þar sem tími og mannaforráð lögreglu eru takmörkuð viljum við síður eyða tíma í mál þar sem enginn skaði varð og engin hætta var á ferðum.

Ef fólk er hins vegar í þeirri stöðu að hafa fallið fyrir slíkum sendingum er gríðarlega mikilvægt að tilkynna slíkt strax til lögreglu, sem gerir þá allt sem hægt er til að liðsinna viðkomandi og rannsaka svikin.

Mikið heyrist af málum þar sem reynt er að tæla börn upp í bíla. Hvað er lögreglan að gera í slíkum málum?

Þessi mál eru skiljanlega mjög ofarlega á forgangslista okkar og við tökum þau mjög alvarlega en einn starfsmaður embættisins hefur það hlutverk að safna öllum slíkum tilkynningum saman og greina þær frekar.

Gott er að geta þess að slík mál koma oft upp í kjölfar umræðu og er það reynsla okkar að komi ein tilkynning, fylgja oftast fleiri með í kjölfarið. Þannig virðist umræðan stundum kalla fram ákveðinn ótta hjá börnum og fara þau því að túlka eðlilegar aðstæður á verri veg. Við hverjum börn til að vera á varðbergi og hlaupa í burtu ef þau upplifa sig í hættu en það veldur því líka  að við fáum stundum tilkynningar þar sem börn mistúlka aðstæður sem eðlilegar skýringar finnast á. Við viljum þó að okkur berist of margar tilkynningar heldur en of fáar.

Hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu er lögð mikil vinna við að skrá niður allar upplýsingar og meta aðstæður, hvort um sama aðila sé að ræða, alvarleika málanna og þar fram eftir götunum. Þannig er hvert mál skoðað og borið saman við önnur tilvik, en það er einmitt gert til þess að lögreglan geti brugðist hratt við ef aðstæður skapast þar sem hætta er talin vera á ferðum. Þess ber að geta að í langflestum tilfellum eru málsatvik mjög óljós og því erfitt að greina hvort um raunverulega hættu hafi verið að ræða.

Hvað aukið eftirlit varðar þá er slíkt að sjálfsögðu alltaf í skoðun. Við höfum yfir ákveðnum fjölda lögreglutækja að ræða og reynum að beita þeim jafnt í þeim hverfum sem lögreglustöðvarnar sinna. Þannig getum við ekki sinnt einu hverfi umfram öðru, enda ekkert sem bendir til að slíkar tilkynningar, þar sem grunur leikur á að reynt hafi verið að tæka barn í bíl, séu bundnar við ákveðin hverfi. Þvert á móti koma þessi mál upp um allt höfuðborgarsvæðið, en eins og áður kom fram, koma þær gjarnan nokkrar saman. Það fær fólk stundum til þess að halda að sérstök hætta sé í ákveðnu hverfi, en svo þarf alls ekki að vera, enda leggjum við töluverða vinnu í að greina þessi mál frekar.

Að þessu sögðu er þér og öðrum íbúum meira en sjálfsagt að vera í sambandi við lögreglustöðina í hverfinu ykkar en þar getið þið rætt við yfirmenn stöðvanna um áhyggjur ykkar.

Hvar sæki ég um nýtt vegabréf?

Útgáfa vegabréfa er í höndum sýslumanna og því er best að leita til sýslumanns í þínu sveitarfélagi. Hjá embætti Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu annast starfstöðvarnar í Kópavogi eða Hafnarfirði afgreiðslu vegabréfa. Allar upplýsingar er að finna á vefsíðunni vegabréf.

Mega konur vera berbrjósta á almannafæri?

Þetta er ansi skemmtileg fyrirspurn, en kannski ekki nokkuð sem hægt er að svara á mjög einfaldan máta.

Í fyrsta lagi er ákvæði í hegningarlögum sem snýr að blygðunarsemisbrotum, en eins og svo margt annað þá er það auðvitað háð mati þess sem upplifir sig að hafa orðið fyrir því að blygðun viðkomandi sé ofboðið og ásetningi þess sem framkvæmir, s.s. hvort viðkomandi sé hreinlega að bera sig til að njóta sólarinnar eða að bera sig til að hneyksla aðra og láta þeim líða illa.

Að sama skapi fjallar lögreglusamþykkt um svipað efni en þar segir í 3. grein: „Enginn má áreita aðra á almannafæri eða sýna þar af sér ósæmilega háttsemi.“ Þannig má í raun segja að eins og svo margt annað sé þetta allt háð mati. Ef við gæfum okkur tvö ímynduð dæmi um einstakling sem liggur í fáklædd/ur sólbaði en annann sem hleypur um á fæðingargallanum einum saman, til þess eins að valda usla og leiðindum. Margt í okkar vinnu er þannig alfarið háð aðstæðum, það er einmitt staðan sem gerir okkar vinnu svo ansi flókna, að það eru svo ansi mörg atriði sem þarf að hafa til hliðsjónar þegar teknar eru ákvarðanir.

Hvar er sótt um stæðiskort fyrir fatlaða?

Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu sér um útgáfu kortanna á höfuðborgarsvæðinu. Umsækjendur þurfa að fylla út umsókn og skila inn ásamt læknisvottorði og ljósmynd (passamynd). Að því loknu er lagt mat á umsókn um stæðiskort og gefur út stæðiskortið að uppfylltum skilyrðum reglugerðar um útgáfu stæðiskorta fyrir hreyfihamlaða nr. 369/2000.

Er leyfilegt að brugga til eigin nota?

Stutta svarið er: Nei – það að brugga áfengi er ekki löglegt nema að viðkomandi hafi til þess sérstakt leyfi. En – fyrst er ef til vill gott að skoða hvað flokkast undir áfengi. Í 2. grein áfengislaga, lögum nr. 75/1998 segir:

„Samkvæmt lögum þessum telst áfengi hver sá neysluhæfur vökvi sem í er að rúmmáli meira en 2,23% af hreinum vínanda.“

En í 6. grein sömu laga segir að:

„Með framleiðslu áfengis er átt við hvers konar bruggun, gerjun eða eimingu áfengra drykkja, sem og blöndun eða átöppun eins og fleiri áfengra drykkja. Til framleiðslu í þessum skilningi telst þó ekki blöndun áfengra drykkja sem á sér stað samtímis og sem hluti af veitingu áfengis.“

Þannig er það í raun alveg ljóst að framleiðsla áfengis er leyfisskyld, hvort sem um ræðir lítið eða mikið magn, svo lengi sem að áfengismagn í vökvanum fer yfir 2,25% af hreinum vínanda.