Samfélagslöggæsla er hugmyndafræði löggæslu sem leggur áherslu á jákvæð tengsl við íbúa. Markmið er ekki aðeins að draga úr afbrotum, heldur að stuðla að auknu öryggi og vellíðan með því að vinna með samfélagsþegnum að því að greina og leysa vandamál sem tengjast almannaöryggi. Samfélagslögreglumenn leggja áherslu á sýnileika, þátttöku í sínum samfélögum og reglulegt svæðisbundið samráð til að skapa gagnkvæmt traust.

Samfélagslöggæsla er mikilvægur þáttur í vinnu lögreglu í að varna afbrotum. Fjallað er um markmið lögreglu vegna afbrotavarna í löggæsluáætlun.

 

Lögregluembættin eiga í margvíslegu svæðisbundnu samráði í samræmi við ákvæði lögreglulaga um hlutverk lögreglu.  Má þar sérstaklega nefna það hlutverk lögreglu að stemma stigu við afbrotum, greiða götu borgaranna eftir því sem við á og starfa í samvinnu við önnur stjórnvöld og stofnanir sem hafa með höndum verkefni sem tengjast starfssviði lögreglu.  

Í 11. gr. lögreglulaganna er fjallað um samvinnu lögreglu við önnur stjórnvöld og stofnanir og aðra aðila í lögreglulögunum: „Lögregla skal, eftir því sem þörf er á, hafa gagnkvæmt samstarf við önnur stjórnvöld, stofnanir, félagasamtök og einkaaðila við lögreglurannsóknir, framkvæmd löggæslu og önnur verkefni. Er lögreglu og samstarfsaðilum heimilt að skiptast á upplýsingum, þar á meðal persónuupplýsingum, að því marki sem nauðsynlegt er, til að lögregla eða samstarfsaðili geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu. Sérstaklega skal lögregla vinna með félagsmála-, heilbrigðis- og menntamálayfirvöldum að forvörnum eftir því sem tilefni gefst til og aðstæður leyfa og upplýsa þessa aðila um málefni sem krefjast afskipta þeirra.“