Lögreglan hefur ríkar lagaheimildir til að sinna störfum sínum, sem geta falið í sér veigamikil inngrip í líf borgara.

Eftirlit með störfum lögreglu er mikilvægt til að stuðla að trausti og stuðningi við oft flókin viðfangsefni lögreglunnar. Slíkt eftirlit er bæði í þágu borgara og þeirra sem starfa innan lögreglunnar.

Skipta má eftirlitinu í innra og ytra eftirlit.

Innra eftirlit

Innra eftirlit fer fram innan lögreglunnar og felur í sér meðal annars handbækur, verklagsreglur, verklýsingar og verkferla. Mikilvægur þáttur í innra eftirlitinu eru búkmyndavélar sem lögreglumenn bera á sér. Yfirmenn lögregluembættanna fylgja eftir innra eftirlitinu.

Með lögum nr. 95/2024, var ríkislögreglustjóra falið að starfrækja innra gæðaeftirlit með störfum lögreglu. Hlutverk þess er að stuðla að bættri löggæslu og tryggja að lögregla starfi í samræmi við lög og verklagsreglur.  Gæðastjóri lögreglu mun starfa sjálfstætt í sérstakri einingu innan embættis ríkislögreglustjóra og mun taka til starfa 1. janúar 2025.

Lögreglustjórar fara einnig með hluta ákæruvalds. Ríkissaksóknari, sem er æðsti handhafi ákæruvalds, hefur lögbundið eftirlitshlutverk með ákvörðunum lögreglu er varða meðferð ákæruvaldsins og rannsóknir einstakra mála samkvæmt sakamálalögum nr. 88/2008.

Dómsmálaráðherra fer einnig með almennar yfirstjórnunar- og eftirlitsheimildir gagnvart lögreglu sem æðsti yfirmaður hennar.

Ytra eftirlit

Nefnd með eftirlit með störfum lögreglu (NEL) var stofnuð árið 2016 og er hún sjálfstæð stjórnsýslunefnd. Ákvarðanir nefndarinnar eru endanlegar og ekki hægt að áfrýja þeim til æðra stjórnvalds. Hlutverk nefndarinnar er að:

  • Taka við kæru á hendur starfsmanni lögreglu fyrir ætlað refsivert brot við framkvæmd starfa hans.
  • Taka til meðferðar kvartanir vegna starfsaðferða lögreglu eða framkomu starfsmanns lögreglu sem fer með lögregluvald.
  • Taka atvik og verklag lögreglu til skoðunar að eigin frumkvæði þegar nefndin telur tilefni til.

Ef tilefni er til, er kvörtun send til viðeigandi embættis til frekari meðferðar. NEL fylgist þá með því hvernig embættið fer með erindið.

Ef erindi varðar ætlaða refsiverða háttsemi, er erindinu án tafar beint til héraðssaksóknara eða eftir atvikum ríkissaksóknara. Sama á við ef einstaklingur lætur lífið eða verður fyrir stórfelldu líkamstjóni í tengslum við störf lögreglu, óháð því hvort grunur sé um refsivert brot.

Ríkissaksóknari, héraðssaksóknari og lögreglustjórar, þ.m.t. ríkislögreglustjóri, eru skyldugir til að afhenda nefndinni þær upplýsingar sem hún þarf til að sinna starfsskyldum sínum. Ráðherra setur nánari reglur um starfsemi nefndarinnar.

Nánari upplýsingar um NEL, þ.m.t. hvernig eigi að tilkynna mál, má finna á vefsíðu nefndarinnar.

Ríkissaksóknari hefur eftirlit með aðgerðum lögreglurannsóknar- og greiningardeildar ríkislögreglustjóra sem varða landráð og brot gegn stjórnskipan ríkisins og æðstu stjórnvöldum, mat á hættu á hryðjuverkum og skipulagðri brotastarfsemi í samræmi við ákvæði laga nr. 95/2024.

Nánari upplýsingar má finna á vefsíðu ríkissaksóknara.